Skúfönd (Aythya fuligula)

Útbreiðsla

Skúfönd verpur í Evrópu og Asíu til Kyrrahafs. Hún er farfugl að langmestu leyti en nokkur hundruð fugla halda til hér á vetrum, einkum á lindasvæðum suðvestanlands.

Stofnfjöldi

Skúfönd er hér algeng og útbreidd en þó langalgengust á Mývatni. Íslenski stofninn er gróflega metinn 8.000−12.000 pör og þá gert ráð fyrir að 50−67% fuglanna verpi við Mývatn en 5.000−10.000 steggir sáust þar vorin 2005−2015 (Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, óbirt gögn). Um 700−1.400 steggir sáust á öðrum vatnasvæðum í Þingeyjarsýslu á sama tíma (Yann Kolbeinsson o.fl. 2016) og fjölgaði fuglunum nokkuð samfellt á báðum talningarsvæðunum. Undanfarin ár hefur þó borið á fækkun (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023).

Válistaflokkun

NT (í yfirvofandi hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
NT NT LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 5,96 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 2006-2024

Langstærstan hluta skúfandarstofnsins er að finna í Þingeyjarsýslum. Þar sýna vortalningar miklar sveiflur en undanfarin ár hefur verið ör fækkun (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023). Yfir viðmiðunartímabilið (2006-2024) hefur skúfönd fækkað um 15-20% og flokkast hún því sem tegund í yfirvofandi hættu (NT). Vísitölur úr vetrarfuglatalningum hafa þó sýnt fjölgun (sjá graf) en þar sem skúfendur eru að mestu farfuglar er óvíst að talningarnar nái vel yfir stofnþróun. Skúfönd var flokkuð sem ekki í hættu á Evrópska válistanum þangað til nýlega þegar hún var metin í yfirvofandi hættu (NT) vegna fækkunar.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Skúfönd var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Skúfönd var ekki í hættu (LC).

Verndun

Skúfönd er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem andarvarp er mikið, skal veiðirétthafa heimilt að taka egg frá skúfönd. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Eggin má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða skúfönd frá 1. september til 15. mars.

Mikilvæg svæði

Mývatn hefur undanfarinn áratug talist alþjóðlega mikilvægt svæði fyrir skúfönd (sjá töflu).

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Evrópa = 13.500 fuglar/birds; 4.500 pör/pairs (Wetlands International 2016)

B1 i: NV-Evrópa = 9.000 fuglar/birds; 3.000 pör/pairs (Wetlands International 2016)

Töflur

Skúfandarvarp á mikilvægum fuglasvæðum á Íslandi – Breeding Aythya fuligula in important bird areas in Iceland.

Svæði
Area
Svæðisnúmer
Area code
Árstími
Season
Fjöldi (pör)
Number (pairs)
Ár
Year
% af íslenskum stofni
% of Icelandic popul.
Alþjóðlegt mikilvægi
International importance
Vestmannsvatn1 VOT-N_9 B 359 2016 3,6  
Mývatn–Laxá2 VOT-N_11 B 7.056 2006–2015 70,6 A4i, B1i
Öxarfjörður1 VOT-N_12 B 707 2016 7,1  
Úthérað3 VOT-A_3 B 175 2000 1,8  
Alls–Total     8.297   83,0  
1Náttúrustofa Norðausturlands, óbirt gögn/unpubl. data
2Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, óbirt gögn/unpubl. data
3Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001

Myndir

Heimildir

Guðmundur A. Guðmundsson, Guðmundur Guðjónsson, Sigurður H. Magnússon, Kristbjörn Egilsson, Halldór Walter Stefánsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2001. Kárahnjúkavirkjun: áhrif breytinga á vatnafari Jökulsár á Dal og Lagarfljóts á gróður, fugla og seli. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-01005. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search[skoðað 26. nóvember 2016].

Yann Kolbeinsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2016. Fuglavöktun í Þingeyjarsýslum 2015. Náttúrustofa Norðausturlands, NNA-1603. Húsavík: Náttúrustofa Norðausturlands.

Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Árni Einarsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson, & Þorkell Lindberg Þórarinsson 2023. Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://nna.is/wp-content/uploads/2024/01/2306-Fuglavoktun-2021-2023.pdf

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Andfuglar (Anseriformes)
Tegund (Species)
Skúfönd (Aythya fuligula)

English Summary

The Aythya fuligula population in Iceland is roughly estimated 8,000‒12,000 pairs with approximately 70% breeding at Lake Mývatn, a designated IBA for this species.

Icelandic Red list 2025: Near threatened (NT).