
Útbreiðsla
Langvía verpur allt í kringum norðurhvel jarðar. Hér verpur hún í um 20 byggðum og eru þær langstærstu í Látrabjargi og við Hornvík (sjá kort). Langvía er staðfugl að mestu en hingað leita auk þess færeyskir og breskir fuglar á vetrum.
Stofnfjöldi
Íslenski langvíustofninn taldi um 690 þúsund pör 2006−2008 og hafði fækkað um 29% frá fyrra stofnmati kringum 1985 (Arnþór Garðarsson o.fl., í prentun b). Fækkunin var mest suðvestanlands, töluverð á Vestfjörðum og Langanesi, lítil breyting var í Drangey og Grímsey en fjölgun í Skrúði og Papey.
Válistaflokkun
VU (í nokkurri hættu)
Ísland | Evrópuválisti | Heimsválisti |
---|---|---|
VU | NT | LC |
Forsendur flokkunar
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1985–2027Kynslóðalengd (IUCN): 15,1 ár
Langvíum fækkaði um 30% milli talninga 1983–1986 og 2006–2008 eða sem samsvarar um 1,6% á ári (Arnþór Garðarsson o.fl., í prentun). Endurteknar talningar á fjórum stöðum árið 2009 sýndu áframhaldandi fækkun. Athuganir á sniðum í völdum björgum 2009–2017 sýna áframhaldandi fækkun (Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2017). Langvía er því flokkuð sem tegund í nokkurri hættu (VU, A4abc).
Viðmið IUCN: A4abc
A4. Fækkun í stofni ≥30% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:(a) beinni athugun,(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni,(c) samdrætti á dvalar- eða varpsvæði, útbreiðslusvæði og/eða hnignun búsvæðis.
Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)
Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)
Eldri válistar
Válisti 2000: Langvía var ekki í hættu (LC).
Verndun
Langvía er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka langvíu taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna langvíu í háf töldust til hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis. Veiðar þessar hefjist ekki fyrr en 1. júlí og ljúki eigi síðar en 15. ágúst.
Samkvæmt reglugerð 765/2017 er heimilt að veiða langvíu frá 1. september til 25. apríl.
Válisti
Hin mikla og tiltölulega snögga fækkun langvíu hér á landi leiddi til þess að langvía er nú á evrópskum válista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT; BirdLife International 2015).
Alls eru 10 langvíuvörp hér flokkuð sem alþjóðlega mikilvæg og verpur allur stofninn á mikilvægum fuglasvæðum (sjá töflu).
A4 ii: heimsstofn/global = 60.000 pör/pairs (Wetlands 2016)
B1 ii: Ísland/Færeyjar/Skotland/S-Noregur/Eystrasalt (Uria a. aalge) = 48.000 fuglar/birds (Wetlands 2016)
Töflur
Mikilvægar langvíubyggðir á Íslandi – Important colonies of Uria aalge in Iceland*
Svæði Area | Svæðisnúmer Area code | Árstími Season | Fjöldi (pör) Number (pairs) | Ár Year | % af íslenskum stofni % of Icelandic popul. | Alþjóðlegt mikilvægi International importance |
---|---|---|---|---|---|---|
Krýsuvíkurberg | SF-V_1 | B | 8.785 | 2007 | 1,3 | B2 |
Látrabjarg | SF-V_13 | B | 225.912 | 2006–2007 | 32,7 | A4ii, A4iii, B1ii, B2 |
Ritur | SF-V_31 | B | 11.789 | 2007 | 1,7 | A4iii, B2 |
Hælavíkurbjarg, Hornbjarg | SF-V_35, 36 | B | 268.275 | 2007 | 38,9 | A4ii, A4iii, B1ii, B2 |
Drangey | SF-N_2 | B | 7.099 | 2007 | 1,0 | B2 |
Grímsey út af Eyjafirði | SF-N_8 | B | 67.293 | 2007 | 9,8 | A4ii, A4iii, B1ii, B2 |
Skoruvíkurbjarg | SF-N_13 | B | 27.343 | 2007 | 4,0 | A4iii, B1ii, B2 |
Langanesbjörg | SF-N_14 | B | 16.518 | 2006, 2008 | 2,4 | A4iii, B1ii, B2 |
Skrúður | SF-A_8 | B | 11.483 | 2008 | 1,7 | A4iii, B2 |
Vestmannaeyjar | SF-S_4 | B | 33.016 | 2006 | 4,8 | A4iii, B1ii, B2 |
Önnur mikilvæg svæði Other important areas | B | 15.661 | 2,3 | |||
Alls–Total | 693.174 | 100 | ||||
*byggt á Arnþór Garðarsson o.fl., 2019. |
Myndir

Heimildir
Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson og Kristján Lilliendahl 2019. Svartfugl í íslenskum fuglabjörgum 2006–2008. Bliki 33: 35–46.
Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].
Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].
Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2017. Vöktun bjargfuglastofna 2017. Framvinduskýrsla. Náttúrustofa Norðausturlands. NNA-1708.
Höfundur
Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018
Biota
- Tegund (Species)
- Langvía (Uria aalge)
English Summary
Uria aalge is a common breeding bird in Iceland with 693,000 pairs; ten colonies are of international importance (≥10,000 pairs) and all the population breeds within IBAs.
Icelandic Red list 2018: Vulnerable (VU, A4abc), uplisted from Least concern (LC) in 2000.