
Útbreiðsla
Stuttnefja verpur allt í kringum norðurhvelið og er útbreiðsla hennar norðlægari en langvíu. Stuttnefjur sjást lítið á grunnslóð yfir veturinn en íslenskir fuglar dvelja sumir við landið en aðrir halda vestur fyrir Grænland; eins koma hingað fuglar úr norðri á veturna (Frederiksen o.fl. 2016).
Stofnfjöldi
Íslenski stuttnefjustofninn var síðast metinn 2006−2008 og reyndist þá 326.800 pör og hafði þá fækkað um 43% frá fyrri talningum um 1985 (Arnþór Garðarsson o.fl., í prentun). Mest var fækkunin suðvestanlands og á Langanesi. Varpútbreiðslan er í megindráttum sú sama og hjá langvíu (sjá kort), en langstærsti hluti stofnsins verpur á Vestfjörðum, þ.e. í björgunum við Hornvík (184.000 pör) og í Látrabjargi (118.000 pör).
Válistaflokkun
VU (í nokkurri hættu)
Ísland | Evrópuválisti | Heimsválisti |
---|---|---|
VU | LC | LC |
Forsendur flokkunar
Kynslóðalengd (IUCN): 13,04 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1985-2024
Stuttnefjum fækkaði um 44% milli talninga 1983–1986 og 2006–2008 eða sem samsvarar um 2,64% á ári (Arnþór Garðarsson o.fl. 2019). Athuganir á sniðum í völdum björgum 2009–2023 sýna hins vegar ýmist fækkun eða fjölgun í mismunandi byggðum (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023). Ef gert er ráð fyrir að breytingar á sniðum endurspegli breytingar í allri byggðinni fæst að stuttnefju hefur fjölgað um ~0,4% á ári milli 2009-2023 (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023, Náttúrustofa Norðausturlands, óbirt gögn). Séu þessi tvö tímabil (1983-2008 og 2009-2023) tekin saman hefur stuttnefju fækkað um að meðaltali 1,3% á ári sem myndi samsvara tæplega 40% fækkun á viðmiðunartímabilinu (1985-2024) og er stuttnefja því flokkuð sem tegund í nokkurri hættu (VU, A4abc).
Viðmið IUCN: A4ab
A4. Fækkun í stofni ≥30% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:
(a) beinni athugun,
(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni,
(c) samdrætti á dvalar- eða varpsvæði, útbreiðslusvæði og/eða hnignun búsvæðis.
Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)
Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)
Eldri válistar
Válisti 2000: Stuttnefja var flokkuð sem tegund í nokkurri hættu (VU).
Válisti 2018: Stuttnefja var flokkuð sem tegund í hættu (EN).
Staða á heimsvísu
Stuttnefja er ekki metin í hættu á Evrópu- eða heimsválista þar sem hún er mjög útbreidd og virðist stofninn vera í vexti á heimsvísu (BirdLife International 2018). Stuttnefju hefur þó fækkað á undanförnum áratugum í austurhluta heimkynna sinna við Atlantshaf; á Íslandi, víða á Grænlandi, Svalbarða og í Noregi. Hún hefur þó ekki enn verið sett á alþjóðlega válista en var skráð sem tegund í nokkurri hættu (VU) hér á landi árið 2000 (Náttúrufræðistofnun Íslands 2000). Nýlegar rannsóknir á fuglum með dægurrita sýna að fuglar frá þessum fækkunarsvæðum hafa vetursetu við Ísland og V-Grænland en fuglar frá varpsvæðum með stöðuga stuttnefjustofna eins og á NV-Grænlandi og í Kanada, hafa vetursetu undan ströndum Kanada (Frederiksen o.fl. 2016).
Verndun
Stuttnefja er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka stuttnefju taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna stuttnefju í háf töldust til hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis. Veiðar þessar hefjist ekki fyrr en 1. júlí og ljúki eigi síðar en 15. ágúst.
Samkvæmt reglugerð 765/2017 er heimilt að veiða stuttnefju frá 1. september til 25. apríl.
Mikilvæg svæði
Þrjú íslensk stuttnefjuvörp eru flokkuð sem alþjóðlega mikilvæg og nær allur stofninn (99%) verpur á mikilvægum fuglasvæðum (sjá töflu).
A4 ii: heimsstofn/global 73.333 pör/pairs
(Wetlands Int. 2016)
B1 ii: N-Atlantshaf = 28.667 pör/pairs (Wetlands Int. 2016)
Töflur
Mikilvægar stuttnefjubyggðir á Íslandi – Important colonies of Uria lomvia in Iceland.*
Svæði Area | Svæðisnúmer Area code | Árstími Season | Fjöldi (pör) Number (pairs) | Ár Year | % af íslenskum stofni % of Icelandic popul. | Alþjóðlegt mikilvægi International importance |
---|---|---|---|---|---|---|
Látrabjarg | SF-V_13 | B | 118.034 | 2006–2007 | 35,8 | A4ii, A4iii, B1ii |
Ritur | SF-V_31 | B | 2.482** | 2007 | 0,8 | |
Hælavíkurbjarg, Hornbjarg | SF-V_35, 36 | B | 183.738 | 2007 | 55,7 | A4ii, A4iii, B1ii |
Drangey | SF-N_2 | B | 12.666 | 2007 | 3,8 | A4iii |
Grímsey út af Eyjafirði | SF-N_8 | B | 4.054 | 2007 | 1,2 | |
Skoruvíkurbjarg | SF-N_13 | B | **2.484 | 2007 | 0,8 | |
Önnur mikilvæg svæði Other important areas |
B | 3.377 | 1,0 | |||
Alls–Total | 326.835 | 99,0 | ||||
*byggt á Arnþór Garðarsson o.fl. 2019. **12.000 pör 1985 |
Myndir

Heimildir
Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson og Kristján Lilliendahl 2019. Svartfugl í íslenskum fuglabjörgum 2006–2008. Bliki 33: 35–46.
Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].
BirdLife International (2018). Species factsheet: Thick-billed Murre Uria lomvia. Downloaded from https://datazone.birdlife.org/species/factsheet/thick-billed-murre-uria-lomvia [skoðað 26.03.2025].
Frederiksen, M., S. Descamps, K.E. Erikstad, A.J. Gastone, H.G. Gilchrist, D. Grémillet, K.L. Johansen, Y. Kolbeinsson, J.F. Linnebjerg, M.L. Mallory, L.A. McFarlane Tranquilla, F.R. Merkela, W.A. Montevecchi, A. Mosbech, T.K. Reiertsen, G.J. Robertson, H. Steen, H. Strøm og T.L. Thórarinsson 2016. Migration and wintering of a declining seabird, the Thick-billed Murre Uria lomvia, on an ocean basin scale: Conservation implications. Biological Conservation 200: 26–35.
Náttúrufræðistofnun Íslands 2000. Válisti 2: fuglar. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands.
Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].
Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Þorkell Lindberg Þórarinsson, Brynjúlfur Brynjólfsson, Cristian Gallo, Hálfdán Helgi Helgason, Jón Einar Jónsson, Rodrigo A. Martínez Catalán, Róbert Arnar Stefánsson og Sindri Gíslason. Vöktun bjargfuglastofna á Íslandi 2020-2022 (2023). Skýrsla unnin fyrir umhverfisstofnun (NNA-2304). https://nna.is/wp-content/uploads/2023/10/2304-Bjargfuglavoktun-2020-2022.pdf
Höfundur
Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018
Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025
- Tegund (Species)
- Stuttnefja (Uria lomvia)
English Summary
Uria lomvia is a common, but rapidly declining breeding bird in Iceland with 327,000 pairs; three colonies are of international importance (≥10,000 pairs) and all the population breeds within IBAs.
Icelandic Red list 2025: Vulnerable (VU, A4ab).