Hreindýr (Rangifer tarandus)

Útbreiðsla

Hreindýr hafa norðlæga útbreiðslu og finnast allt umhverfis norðurheimskautið, á túndrum (túndruhreinar), í barrskógum (skógarhreinar) og á hánorrænum eyjum (eyjahreinar) norður Evrópu, Síberíu og Norður Ameríku. Langflest hreindýr í Evrópu eru talin til hálftaminna húsdýra. Villtir stofnar finnast þó enn á afmörkuðum svæðum í Noregi, Finnlandi og í Evrópska hluta Rússlands.

Hreindýr voru flutt til Íslands í fjórum atrennum á árunum 1771–1787 og náðu að festa rætur á Reykjanesskaga, í Þingeyjarsýslum og á Austurlandi. Á tveimur fyrrnefndu svæðunum dóu dýrin út á fyrri hluta 20. aldar. Nú eru hreindýr útbreidd víða um hálendi Austurlands og um Austfirði, allt frá Melrakkasléttu í norðri til Suðursveitar í suðri.

Stofnfjöldi

Íslensku hreindýrin eru af stofni hálftaminna dýra í Finnmörku í Noregi en hafa gengið hér villt frá upphafi. Talningar á hreindýrum hafa farið fram að sumarlagi nær árlega frá árinu 1940. Fyrst var farið um ríðandi en frá 1956 hefur verið talið úr flugvél. Stærsti hluti sumarstofnsins var og er við Snæfell og voru talningar lengi vel bundnar við það svæði. Stofnstærð hreindýra á Íslandi er nú metin með talningu af ljósmyndum sem teknar eru úr flugvél. Þrátt fyrir nokkrar sveiflur í stofnstærð hefur fjöldinn aldrei verið meiri en á undanförnum árum eða um 7.000 dýr að sumarlagi. Stofnstærð og útbreiðslu hefur verið stýrt með veiðum frá árinu 1943 en þó einkum frá og með 1990. Veiði á hreindýrum miðar við að stofninn sé sjálfbær og að aldurs- og kynjahlutföll séu nálægt því sem finna má í villtum stofnum. Náttúrustofa Austurlands heldur utan um vöktun á hreindýrastofninum en Umhverfisstofnun sér um veiðistjórnun og sölu veiðileyfa.

Lífshættir

Hreindýr eru hjarðdýr sem stunda árstíðabundið far og er kynja- og aldurssamsetning hópa mismunandi eftir árstíma. Hreindýr verða kynþroska á fyrsta til þriðja vetri en líkamsástand ræður miklu um það hvort kýr taki þátt í tímgun. Tarfarnir þurfa að ná stærð og styrk til að geta keppt við aðra tarfa um hylli kúa og eiga möguleika á að tímgast. Meðgöngutími er um sjö og hálfur mánuður og burðartíminn er í maí. Val kúa á burðarsvæðum fer nokkuð eftir árferði og snjóalögum en einangruð og háttliggjandi svæði eru gjarnan valin á svipuðum slóðum ár eftir ár og halda kelfdar kýr þangað í apríllok. Þar dvelja þær með nýbornum kálfum sínum fram á sumar en geldar kýr og tarfar bætast smám saman í hópinn.

Sjá nánari umfjöllun um hreindýr.

Lýsing

Hreindýr eru meðal stærri hjartardýra. Á Íslandi er meðalfallþungi fullorðinna hreinkúa um 40 kg en fallþungi fullorðinna tarfa er um 90 kg að meðaltali. Bæði kyn eru rúmur metri á axlarhæð en haus og horn tarfa eru stærri en kúa. Hreindýr eru einu hjartardýrin þar sem bæði kyn eru með horn en þau eru felld og vaxa upp árlega. Kynin fella hornin á mismunandi tíma frá nóvember til maí og í maíbyrjun eru kelfdar kýr þær einu sem enn bera horn. Sum dýr fá þó aldrei horn og eru um 4% hreinkúa á Íslandi kollóttar að eðlisfari. Litur hreindýra fellur vel að umhverfinu en þau eru grábrún á haus, baki og fótum en hvít á lendum og kvið. Feldur þeirra lýsist svo þegar líður á haustið og eru þau ljósari að vetri en á sumrin. Hreindýr eru vel aðlöguð að loftslagi norðurslóða, feldurinn er þrefalt þéttari en á öðrum hjartardýrum og vel einangraður. Klaufir þeirra eru stórar og breiðar og henta vel til að bera dýrin í gljúpum eða blautum snjó eða krafsa niður á snæviþakinn gróður að vetri.

Válistaflokkun

NA (á ekki við)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
NA LC VU

Forsendur flokkunar

Hreindýr er innflutt tegund og telst vera framandi  samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013. Sú skilgreining á við um tegundir „sem geta lifað af og fjölgað sér, sem menn hafa flutt vísvitandi eða óvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði eftir árið 1750“ en hreindýr voru flutt til landsins nokkrum áratugum seinna. Auk þessa er stofnstærð og útbreiðslu hreindýra stjórnað með veiðum en ekki náttúrulegum ferlum. Hreindýr koma því ekki til álita við válistamat (NA) samkvæmt viðmiðum IUCN.

Global position

Hreindýr eru talin í nokkurri hættu (VU) á Heimsválista IUCN en villtum hreindýrum hefur fækkað um 40% á tímabili sem spannar þrjár kynslóðir (21-27 ár) og talið er að fækkunin hafi jafnvel staðið mun lengur (Gunn 2016). Hreindýr eru ekki í hættu (LC) á válista Evrópu og sama gildir um svæðislista Noregs, þar með talin undirtegund hreindýra á Svalbarða (R.t. platyrhyncus).

Ógnir

Meðal þess sem talið er geta ógnað stofnum hreindýra víða á útbreiðslusvæðum þeirra eru manngerðar breytingar á landslagi og umhverfi sem meðal annars hindra farleiðir og raska búsvæðum dýranna. Hreindýr, eins og fleiri dýr á norðurslóðum, virðast vera sérstaklega viðkvæm fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sem dæmi má nefna að auknar sveiflur í hitastigi milli frosts og þíðu valda erfiðleikum við fæðunám að vetri (Hansen o.fl. 2011, 2014). Auk þess hefur hlýnun áhrif á viðkomu ýmissa skordýra (sum þeirra eru einnig sníkjudýr) sem geta haft neikvæð áhrif á lífslíkur hreindýra (Laaksonen o.fl. 2010, Hoar o.fl. 2012, Kutz o.fl. 2014). Íslensk hreindýr eru að mestu laus við ágang skordýra og virðast ágætlega aðlöguð að sveiflum í hitastigi að vetrum. 

Verndun

Öll villt landspendýr á Íslandi, fyrir utan mink, húsamús og rottur, eru friðuð í náttúrulegu umhverfi sínu samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Hreindýr hafa þó ávallt notið meiri friðunar í lögum en önnur spendýr á Íslandi. Þau voru til dæmis alfriðuð árið 1787.

Hreindýr voru flutt hingað til landbúnaðar en hafa frá upphafi gengið villt og veiðar á þeim stundaðar nánast alla tíð. Veiðar á hreindýrum eru háðar takmörkunum á svæði, fjölda, kyni og aldri dýra. Umhverfisstofnun úthlutar veiðileyfum en sækja þarf um slíkt árlega. Ráðgjafanefnd eða Hreindýraráð, sem skipað er af umhverfis- og auðlindaráðherra, er Umhverfisstofnun og ráðherra til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins. Hreindýraráð gerir ár hvert tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra, árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða. Þessu til grundvallar liggja tillögur Náttúrustofu Austurlands. Fulltrúum Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

Nefnd um endurskoðun laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum hefur lagt til að Náttúrustofu Austurlands skuli áfram falið vöktunar- og rannsóknarhlutverk og mat á veiðiþoli. Jafnframt að Umhverfisstofnun og Náttúrustofa Austurlands ættu að vinna sameiginlega veiðiráðgjöf varðandi hreindýraveiðar og að Umhverfisstofnun ætti að hafa umsjón með og stjórn á veiðum (Menja von Schmalensee o.fl. 2013). Náttúrustofa Austurlands leggi því fram sínar tillögur að veiðiþoli og kvóta til Umhverfisstofnunar í stað hreindýraráðs. Hreindýraráð verður þá umsagnaraðili um mál er lúta að hreindýrum varðandi stefnumótandi mál, lög, reglugerðir og ákvörðun um veiðikvóta.

Myndir

Heimildir

Gunn, A. 2016. Rangifer tarandus. The IUCN Red List of Threatened Species 2016: e.T29742A22167140. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2016-1.RLTS.T29742A22167140.en. Downloaded on 26 October 2018.

Hansen, B.B., Aanes, R., Herfindal, I., Kohler, J. and Sæther, B.E. 2011. Climate, icing, and wild arctic Reindeer: past relationships and future prospects. Ecology 92: 1917-1923.

Hansen, B. B., Isaksen, K., Benestad, R.E., Kohler, J., Pedersen, Å.Ø., Loe, L.E., Leif, E., Coulson, S.J., Larsen, J.O. and Varpe, Ø. 2014. Warmer and wetter winters: characteristics and implications of an extreme weather event in the High Arctic. Environmental Research Letters 9(11).

Hoar, B.M., Ruckstuhl, K. and Kutz, S. 2012. Development and availability of the free-living stages of Ostertagia gruehneri, an abomasal parasite of barrenground caribou (Rangifer tarandus groenlandicus), on the Canadian tundra. Parasitology 139: 1093-1100.

Kutz, S.J., Ducrocq, J., Verocai, G.G., Hoar, B.M., Colwell, D.D., Beckmen, K.B., Polley, L., Elkin, B.T. and Hoberg, E.P. 2012. Parasites in ungulates of Arctic North America and Greenland: A view of contemporary diversity, ecology, and impact in a world under change. Advances in Parasitology 79: 99-252.

Laaksonen, S.,Pusenius, J., Kumpula, J., Venäläinen, A., Kortet, R., Oksanen, A. and Hoberg, E. 2010. Climate change promotes the emergence of serious disease outbreaks of filarioid nematodes. EcoHealth 7: 7-13.

Menja von Schmalensee, Kristinn H. Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Páll Hersteinsson, Auður L. Arnþórsdóttir, Hólmfríður Arnardóttir og Sigmar B. Hauksson 2013. Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur. Skýrsla unnin fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Skarphéðinn Þórisson 1993. Hreindýr. Í Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnason, ritstj. Villt íslensk spendýr, bls. 251–285.Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd.

Skarphéðinn G. Þórisson 2004. Hreindýr. Í Páll Hersteinsson, ritstj. og Jón Baldur Hlíðberg. Íslensk spendýr, bls. 232–243. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018

Biota

Tegund (Species)
Hreindýr (Rangifer tarandus)

Samantekt á Ensku

Rangifer tarandus was introduced in Iceland from Finnmark (Norway) in the late 18th century and the species is regarded exotic in Icelandic fauna by Icelandic law. Furthermore, abundance and distribution is controlled by hunting. Therefore it is not applicable (NA) for evaluating its red-list status in Iceland according to IUCN criteria.