Mikil fjölgun tegunda í Surtsey 2007

Inngangur


Surtsey séð úr suðri. Máfavarpið með þéttum gróðri sést á hraunbreiðunni og móbergshæðir að baki. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Dagana 9. – 12. júlí 2007 var farinn árlegur sumarleiðangur líffræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar í samvinnu við Surtseyjarfélagið. Í leiðangrinum var gróður og dýralíf kannað í eynni og mælingar gerðar á uppskeru og virkni plantna og jarðvegs. Annað árið í röð fundust óvenjumargar, eða fimm, nýjar tegundir háplantna í eynni auk þess sem eldri landnemar komu í leitirnar sem ekki hafa sést þar í nokkur ár. Einn merkasti plöntufundur í leiðangrinum er burkninn þrílaufungur, sem er þriðja burknategundin sem finnst í Surtsey, hann fannst á þremur stöðum. Þrílaufungur er fremur algengur í birkiskógum og hraunsprungum á vestan-, norðan- og austanverðu landinu en finnst óvíða sunnanlands og kemur fundur hans í Surtsey því nokkuð á óvart.


Burkninn þrílaufungur fundinn í fyrsta sinn í Surtsey. Ljósm. Erling Ólafsson.

Gróður illa farinn af þurrki

Þegar leiðangursmenn komu til Surtseyjar vakti athygli þeirra að gróður var víða illa farinn af þurrki, einkanlega á hraunklöppum þar sem jarðvegur er grunnur (mynd). Áttu þeir því ekki von á að finna marga nýja landnema í eynni. Auk þrílaufungsins, fundust nú í fyrsta sinn vallhumall, háliðagras, hálmgresi og klappadúnurt. Allar nýju tegundirnar fundust í máfabyggðinni á suðurhluta eyjarinnar þar sem frjósemi og vaxtarskilyrði eru orðin best. Í Surtsey hafa fundist alls 69 tegundir háplantna frá árinu 1965 og voru 65 þeirra nú skráðar á lífi í eynni, sem er það langmesta til þessa. Engin úteyja Vestmannaeyja státar af jafn mörgum tegundum háplantna og Surtsey. Búast má við að þeim eigi enn eftir að fjölga næstu árin áður en þeim tekur að fækka aftur vegna áframhaldandi rofs eyjarinnar, þéttingu gróðurs og aukinnar samkeppni.


Hugað að klappadúnurt, nýrri tegund í Surtsey. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Mælingar á ljóstillífun plantna og jarðvegsvirkni í föstum mælireitum sýndu mun lægri gildi en á undanförnum árum og má rekja það til þurrkanna sem ríkt hafa í eynni. Regnvatn hripar auðveldlega niður í gegnum hraunin og jarðvegsvatn er því að jafnaði af skornum skammti í þurrkatíð. Svört gjóskan sem þekur stærstan hluta Surtseyjar hitnar mikið á lygnum sólríkum dögum, en mælst hefur allt að 40°C hiti í efstu lögum hennar við slíkar aðstæður. Þá gufar jarðvegsvatnið upp úr gjóskunni. Það eru einkum plöntur eins og melgresi, fjöruarfi og holurt, sem hafa miklar og djúplægar rætur sem halda ljóstillífun sinni óskertri í þurrkatíð. Þar sem samfelldur gróður hefur myndast er jarðvegur orðinn ríkari af lífrænum efnum sem halda í sér mun meira jarðvegsvatni en gjóskan. Jafnframt kemur þéttur gróðurinn í veg fyrir að jarðvegur hitni eins mikið á sólríkum dögum. Þannig skapa plönturnar sér sjálfar betri vaxtarskilyrði í Surtsey.

Fuglalífið


Sólskríkjuungi. Nokkur pör af sólskríkjum hafa orpið í Surtsey síðan 1996. Ljósm. Erling Ólafsson.

Greinilegt var að varp máfa hefur gengið illa að þessu sinni og fáir ungar að komast á legg. Sílamáfur, sem hefur verið algengasti máfurinn undanfarin ár, var óvenju fáliðaður að þessu sinni. Hann hefur þó orpið í nokkrum mæli í vor en afkoma unga verið afleit. Silfurmáfur hefur haldið í horfinu, en mun meira var af svartbak en undanfarin ár. Svartbaksungar voru í miklum meirihluta. Áætlað er að alls 150 – 200 pör af ofangreindum máfategundum hafi haldið sig í eynni í sumar. Par hvítmáfs og silfurmáfs fannst með unga. Allmikið var um ritu (um 200 fuglar) í suðurbjarginu en mun minna í móberginu vestan megin. Varp ritu virðist einnig hafa misfarist því aðeins fáeinar ritur sátu á hreiðrum. Í bjarginu voru einnig teistur og nokkrir lundar sáust þar, en lundi hefur verið að taka heima í Surtsey á undanförnum árum. Fýlar voru með egg og unga á bjargbrúnum og gígunum inni á eynni; alls voru talin 125 hreiður. Ein álka sást á sjó undir bjarginu og þótti atferli hennar benda til varps. Ekki er vitað til að álka hafi verpt í Surtsey, en það mun koma í ljós á næstu árum hvort hún er nýr varpfugl. Af landfuglum hafa nokkur pör af sólskríkjum orpið í eynni í sumar. Þar var einnig maríuerlupar og þúfutittlingspar með unga. Jafnframt sáust tveir steindeplar, en þeir voru augljóslega gestkomandi. Ekki sást grágæs að þessu sinni en mikill skítur var eftir gæsir í máfabyggðinni. Grágæs hefur orpið í Surtsey undanfarin ár. Leiðangursmenn fundu rytjur af haftyrðlum svo hundruðum skipti í máfabyggðinni, stundum nokkrar saman í hreiðurskálum máfanna (mynd). Haftyrðlar, sem eru minnstir svartfugla, verpa á heimskautasvæðum fyrir norðan Ísland. Á veturna eru þeir algengir á sjó hér við land.

Smádýralífið

Ríkjandi þurrkar virðast hafa haft nokkur áhrif á smádýralíf, því það virtist rýrara en á undanförnum árum. Smádýr voru veidd á hefðbundinn hátt í fallgildrur og háf, en einnig tínd úr sverði og undan steinum og rekaviði. Hinum örsmáa eyjarana, sem nærist á skarfakáli, virðist hafa fjölgað til muna, en þessi annars fágæta tegund verður að teljast einkennispadda Surtseyjar (sjá meira). Tvær nýjar fiðrildategundir hafa numið land. Reyrmölur fannst í Surtsey nýrisinni úr sæ 11. júlí 1967. Nú birtist hann aftur nákvæmlega 40 árum síðar (11. júlí 2007) við skilyrði sem henta tegundinni vel. Einnig fannst smáfiðrildið Bryotropha similis sem nærist á mosum, en þess varð einnig vart árið 1967, reyndar dautt, sjórekið á ströndinni. Grasvefari, túnfeti og jarðygla sem voru fyrir í eynni virðast hafa styrkt stöðu sína.

Stöðugt gengur á eyjuna

Allmiklar breytingar hafa orðið á Surtsey frá síðasta ári. Hamrar á suðvesturhluta eyjarinnar hafa rofnað mikið undan sjávargangi og er berg þar víða nýlega niður hrunið. Á norðurhluta eyjarinnar virðast hafa gengið talsvert á nesið. Stórgrýtisgarður í vesturfjörunni hefur minnkað og sjórinn á því greiðari leið upp í stórviðrum. Þá virðist stórviðri af suðaustri hafa sópað miklu grjóti inn á nesið síðastliðinn vetur.

Talsverður hiti er enn í Surtsey og á nokkrum stöðum gufar upp úr móbergssprungum á háeynni.

Leiðangursmenn


Leiðangursmenn í Surtsey. Talið frá vinstri Sigurður H. Magnússon, Roger del Moral, Borgþór Magnússon, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Erling Ólafsson, Sturla Friðriksson og Trausti Baldursson.

Leiðangursmenn frá Náttúrufræðistofnun voru Borgþór Magnússon, leiðangursstjóri, Erling Ólafsson og Sigurður H. Magnússon. Í leiðangrinum tóku einnig þátt Bjarni Diðrik Sigurðurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Traustri Baldursson frá Umhverfisstofnun, Roger del Moral prófessor í grasafræði við Washington-háskóla í Seattle í Bandaríkjunum sem rannsakað hefur landnám gróðurs á St. Helens eldfjallinu eftir gosið þar árið 1980 og Sturla Friðriksson sem fylgst hefur með landnámi í Surtsey frá því hún reis úr sæ. Með leiðangursmönnum voru einnig fyrstu tvo dagana Páll Stefánsson og Sara Blask frá Iceland Review, Martin Johanssen danskur náttúruljósmyndari og Bjarni Freyr starfsmaður Toyota á Íslandi sem kynnti sér rannsóknirnar í Surtsey, en fyrirtækið veitti nýlega Náttúrufræðistofnun rausnarlegan styrk til Surtseyjarrannsókna næstu þrjú árin (sjá meira).

MEIRA UM SURTSEY Á VEF NÍ