Kortlagning á útbreiðslu gróðurelda

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins hafa skoðað og kortlagt þrjú svæði þar sem sinueldar komu upp í lok mars síðastliðnum, í Gröf í Lundarreykjadal, Hvammi í Skorradal og við eyðibýlið Merkihvol í Landsveit. Bruninn í Gröf var langumfangsmestur en þar fór eldur yfir tæplega 40 hektara, við Merkihvol brunnu um 2 hektarar og innan við hálfur hektari í Hvammi.

Í Gröf í Lundarreykjadal brann land þann 25. mars. Þar hafði verið heimilað að brenna sinu en eldurinn fór úr böndum og hljóp undan norðaustanstrekkingi upp um tún og graslendi við bæinn. Það breiddist hann áfram upp í heiðina ofan bæjar. Um tíma var óttast að eldurinn hlypi yfir hálsinn og niður í Skorradal. Útbreiðslu hans tókst hins vegar að hemja með aðstoð þyrlu. Brunasvæðið í Gröf reyndist vera 49,8 hektarar að utanmáli en innan þess voru þrír allstórir melablettir og skurðastykki sem eldur náði ekki til. Heildarstærð brunnins lands í Gröf reyndist vera 39 hektarar.

Í Hvammi í Skorradal kom upp eldur í miðju sumarhúsahverfi þann 30. mars. Kviknaði hann út frá flugeldum. Skjótt var brugðist við og tókst að slökkva eldinn áður en hann náði verulegri útbreiðslu. Í Hvammi voru það deigt graslendi og lítilsháttar af kjarrlendi sem brunnu, alls 0,28 hektarar að flatarmáli. Í nágrenni brunasvæðisins er þéttur barrskógur og lúpínubreiður með miklum eldsmat og hefði getað farið illa hefði eldurinn náð þangað.

Á Merkihvoli kviknaði sinueldur í sumarbústaðalandi þann 31. mars, við jaðar gamals birkiskógar vestan Ytri-Rangár. Vindur stóð af skóginum og breiddist eldurinn niður í uppgræðslusvæði vaxið lúpínu, grasi og skógarplöntum. Eldinn tókst að hemja og varð hann ekki umfangsmikill. Á Merkihvoli brunnu 1,7 ha lands.

Þeir Guðmundur Guðjónsson og Sigurður K. Guðjohnsen á Náttúrufræðistofnun Íslands kortlögðu brunasvæðin í Borgarfirði, en Sigþrúður Jónsdóttir starfsmaður Landgræðslu ríkisins kortlagði svæðið sem brann við Merkihvol. 

Frá því sinueldarnir miklu geisuðu á Mýrum vorið 2006 hefur Náttúrufræðistofnun Íslands í samvinnu við Skógrækt ríkisins, Náttúrustofu Vestfjarða og Landgræðslu ríkisins reynt að kortleggja helstu svæði þar sem gróðureldar hafa komið upp. Þessi kortlagning hefur ekki verið tæmandi. Hún tekur yfirleitt ekki til svæða sem landeigendur fá leyfi til að brenna á jörðum sínum eða smábruna innan marka borga og bæja. Að öðru leyti hefur ekki farið fram skráning á gróðureldum hér á landi og er ástæða til að bæta þar úr.

Í meðfylgjandi töflu eru dregnar saman upplýsingar um þá gróðurelda sem kortlagðir hafa verið frá árinu 2006. Ekki eru þekkt dæmi um meiri gróðurelda hér á landi en þá sem brunnu á Mýrum vorið 2006. Þar fór eldur yfir 6700 hektara eða 67 km2 lands. Aðrir eldar eru litlir í samanburði. Á Skarðsströnd brunnu 105 ha árið 2008 en næstur honum kemur bruninn í Lundarreykjardal nú í vor. Mest er hætta af sinueldum í þurrkatíð að vori, frá lokum mars fram í júní. Eftir að gróður tekur að spretta dregur úr eldhættu. Engu að síður getur hún verið fyrir hendi þegar kemur lengra fram á sumar ef þurrkatíð er mikil. Dæmi um það er bruninn á Hrafnabjörgum í Laugardal við Ísafjarðardjúp sem kom upp í byrjun ágúst 2012. Hann var erfiður viðfangs og kraumaði í 10 daga.

Ár og dagur er eldur kviknaði Svæði Gróðurlendi Flatarmál brunnins lands (ha)
2006 – 30. mars Mýrar Mýrar og flóar 6700
2007 – 23. júní Miðdalsheiði Mosaþemba 9
2008 – 16. apríl Kross og Frakkanes á Skarðsströnd Mýrar og lyngheiði 105
2008 – 29. apríl Útmörk Hafnarfjarðar Lúpína 13
2009 – 5. júní Víðivallargerði í Fljótsdal Graslendi með unglerki 0,5
2009 – 22. júlí Við Helgafell ofan Hafnarfjarðar Mosaþemba 8
2010 – 26. maí Jarðlangsstaðir á Mýrum Birkikjarr, mýri og graslendi 13
2012 – 6. júní Heiðmörk Lúpína og furulundur 0,4
2012 – 16. júní Ásland í Hafnarfirði Lúpína 1
2012 – 3. ágúst Hrafnabjörg í Laugardal í Ísafjarðardjúpi Mýrlendi og kvistlendi 15
2013 – 25. mars Gröf í Lundarreykjadal Tún, graslendi og mólendi 39
2013 – 30. mars Hvammur í Skorradal Graslendi og kjarr 0,3
2013 – 31. mars Merkihvoll á Landi Lúpína, gras og trjárækt 2