Fiðrildavöktun ársins lokið

Árið 1995 var farið af stað með vöktun fiðrilda á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands á tveim stöðum á landinu, Tumastöðum í Fljótshlíð og Kvískerjum í Öræfum. Verkefninu hefur verið haldið úti allar götur síðan og hefur því vaxið ásmegin jafnt og þétt. Náttúrustofur landshlutanna, allar nema ein, hafa hver af annarri gerst þátttakendur í verkefninu í náinni samvinnu við Náttúrufræðistofnun með samstilltum aðgerðum. Er þetta gott dæmi um farsæla samvinnu þessara stofnana sem hver og ein leggur hér sitt af mörkum til að auka þekkingu á mikilvægum hópi smádýra á landsvísu.

Fiðrildaveiðar fara fram frá miðjum apríl fram í miðjan nóvember eða í 30 vikur á ári hverju. Tumastaðir er eini staðurinn þar sem vöktunin hefur verið samfelld frá upphafi. Margt má lesa úr gögnunum. Fljótlega eftir að vöktunin hófst fór af stað umræðan um hlýnun loftslags og víðtækar afleiðingar þess á ýmsum sviðum. Lesa má í áhrif sem hlýnunin kann að hafa haft á fiðrildafánuna á þessu tímabili. Fleiri áhrifavaldar hafa komið við sögu. Árið 2000 varð gos í Heklu og enn afdrifaríkara gos í Eyjafjallajökli 2010. Áhrif eldgosanna á fiðrildi og fleiri smádýr hafa komið skýrt fram í vöktuninni. Vöktunin hefur gefið einstök gögn um áhrif öskufalls á smádýr og eru gögnin enn fremur fágæt í samanburði langt út fyrir landsteina. Fiðrildafánan var vel þekkt fyrir eldgos. Fylgst var með afleiðingunum þegar gosaskan lagðist yfir og síðan áfram hvernig fiðrildin hafa tekist á við áföllin.

Aðkoma Náttúrustofanna, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og ómetanlegs áhugamanns undir Eyjafjöllum hafa gert það mögulegt að fylgja eftir stofnum fiðrilda við ólíkar aðstæður á hverjum stað og bera saman flugtíma tegundanna og kjörlendi á mismunandi stöðunum.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands er í stuttu máli gerð grein fyrir verkefninu, hvernig að því er staðið og hverjir vöktunarstaðirnir eru: Vöktun fiðrilda