Fuglamerkingar 2018

Frá upphafi merkinga árið 1921 hafa verið merktir 740.524 fuglar af 158 tegundum. Helmingur merktra fugla árið 2018 voru auðnutittlingar (10.945). Aðrir fuglar sem mikið var merkt af eru skógarþröstur (2.844), snjótittlingur (1.290), kría (950), lundi (777) og æðarfugl (551). Ein tegund,  moldþröstur (Hylocichla ustulata), var merkt í fyrsta sinn hér á landi. Það var Fuglaathugunarstöð Suðausturlands sem merkti einn fugl á Höfn í Hornafirði í september og annan í Einarslundi í október.

Óvenju margar endurheimtur og álestrar á merki bárust á árinu og voru 4.579 endurheimtur afgreiddar. Af þeim voru næstum því 4.000 svokölluð kontról eigin merkja, það er merktir fuglar sem merkingamenn ná aftur síðar og sleppa eftir að hafa lesið á merkið. Mest endurheimtist af auðnutittlingum og má segja tímabært að taka saman yfirlit um ferðamynstur þeirra eftir merkingaátak síðustu fimm ára.

Alls voru 138 fuglar merktir á Íslandi sem endurheimtust í útlöndum. Meðal þeirra var fyrsti auðnutittlingurinn en hann náðist í net fuglamerkingastöðvar á Skagen í Danmörku, 1.729 km frá Akureyri þar sem hann var merktur fyrr sama ár. Nokkrir fuglar náðust eða sáust mjög fjarri merkingarstað. Sem dæmi endurheimtust þrír spóar 3.880–5.770 km frá merkingastað og var sá sem lengst fór drepinn í Guinea-Bissau 52 dögum eftir merkingu. Sá var merktur sem ófleygur ungi á Rangárvöllum í júní 2016. Stormmáfur sem merktur var sem ungi við Akureyrarflugvöll sumarið 2013 virðist vera reglulegur vetrargestur í Massachusetts í Bandaríkjunum, en hann sást þar fyrst í febrúar 2017 og aftur ári síðar, 4.111 km frá merkingarstað. Á Melrakkasléttu sáust nokkrar sanderlur vorið 2018 sem merktar voru í Máritaníu og Ghana og voru þær komnar 5–7 þúsund km á leið sinni til varpstöðva á A-Grænlandi.

Alls var tilkynnt um 88 endurheimtur og álestra hérlendis á fuglum með erlend merki. Flestir fuglanna, 80 talsins, voru merktir á Bretlandseyjum, tveir í Portúgal og N-Ameríku, einn í Hollandi, Spáni, Rússlandi og Noregi. Af þeim eru nokkrar sem ber hæst. Þar á meðal litmerkt sandlóa sem sást á Garðskaga. Hún var þá komin 2.406 km frá merkingarstað sínum á Byloteyju í Nunavut, Kanada sumarið 2016. Í Vestmannaeyjum fannst nýdauður haftyrðill í janúar 2018 en sá var merktur á Bjarnarey í Barentshafi í ágúst 2016. Fjallað var um fuglinn í Morgunblaðinu 24. febrúar 2018 en ferðir hans tvö undangengin ár voru skráðar með dægurrita. Litmerktur dvergsvanur sást við Hvalsnes í Lóni í apríl 2012. Láðst hafði að tilkynna um fuglinn á sínum tíma en hann reyndist merktur sem fullvaxinn fugl í ágúst 2011 á varpstöðvum á Kashineyju á Korovinskaya-flóa, Nenetskya í Rússlandi, 2.926 km frá Lóni. Í Grindavík var lesið á litmerktan sílamáf í maí 2018. Sá hafði verið merktur í Malaga á Spáni í desember 2014 og var kominn um 3.250 km veg til varps á Íslandi. Annar litmerktur sílamáfur, álíka langt að kominn, sást í tvígang í Njarðvík í maí og júní. Sá var merktur í Faro í Portúgal í apríl 2016. Svartþröstur sem merktur var í nóvember 2017 í Yorkshire á Englandi sást á Stöðvarfirði í apríl 2018.

Mörg aldursmet voru slegin á árinu. Tilkynnt var um skrofu sem merkt var fullorðin á hreiðri í Ystakletti árið 1991 og náðist aftur á hreiðri á sama stað 2017, 26 árum síðar. Fuglinn var þá að minnsta kosti 28 ára gamall. Tilkynnt var um grágæs sem merkt var sem merkt var sem ungi við Blönduós árið 2000 fannst dauð á sama stað haustið 2017, þá 17 ára og fjögurra mánaða. Haförn sem merktur var sem ungi á norðanverðu Snæfellsnesi sumarið í júlí 1993 fannst aðframkominn í V-Húnavatnssýslu í janúar 2018, þá 24 og hálfs árs gamall. Honum var hjúkrað til lífs og sleppt aftur. Í Hampshire á Englandi var lesið á merki jaðrakans sem merktur var hér á landi að minnsta kosti tveggja ára gamall og því var fuglinn orðinn allavega 16 ára og 10 mánaða. Teista sem merkt var á hreiðri í júní 1995 var handsömuð í sömu hreiðurholu 2018 og hefur þá verið að minnsta kosti 27 ára og eins mánaðar gömul. Elsti auðnutittlingurinn var merktur á Akureyri sem fullvaxinn í desember 2011. Hann náðist á sama stað, orðinn að minnsta kosti sjö ára og sex mánaða.

Ítarlegri upplýsingar um fuglamerkingar 2018 má finna í skýrslunni Fuglamerkingar 2018 (pdf)