Veiðiþol rjúpnastofnsins

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins haustið 2019 og hafa niðurstöðurnar verið kynntar umhverfis- og auðlindaráðherra með bréfi. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er 72 þúsund fuglar. Forsendur matsins byggja á þeirri stefnu stjórnvalda  að rjúpna- veiðar skuli vera sjálfbærar.

Rjúpnastofninn er í niðursveiflu víðast hvar um land. Sums staðar, líkt og á Norðausturlandi, er stofninn þokkalega sterkur miðað við síðustu 24 ár, en annars staðar stendur hann veikt, líkt og á Suðausturlandi. Viðkoma rjúpunnar á Norðausturlandi og Vesturlandi var góð. Áætlaður rjúpnafjöldi haustið 2019 er vel yfir meðallagi miðað við síðustu áratugi.

Á samráðsfundi fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfis- stofnunar, Skotveiðifélags Íslands og Fuglaverndar, sem haldinn var 6. september síðastliðinn, var enginn ágreiningur um ástand rjúpnastofnsins 2019 og árangur veiðistjórnunar 2005 til 2018.

Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2019 var metin 228 þúsund fuglar. Framreiknuð stærð veiðistofns 2019 er 820 þúsund fuglar miðað við að hlutfall unga á veiðitíma sé 77%. Með varpstofni annars vegar og veiðistofni hins vegar er átt við fjölda fugla á lífi í upphafi varptíma og í upphafi veiðitíma. Samkvæmt framangreindum útreikningum er ráðlögð veiði 2019 um 72 þúsund fuglar. Þessi ráðgjöf miðast við að áhrif veiða séu ekki önnur en þau að veiðiafföll bætast að fullu við náttúruleg afföll.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögur Umhverfisstofnunar sem unnar voru í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglaverndarfélag Íslands og Skotvís að haustið 2019 verði rjúpnaveiðitíminn 22 dagar og að sama fyrirkomulag verði 2020 og 2021 nema eitthvað óvænt komi upp. Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki athugasemdir við það fyrirkomulag rjúpnaveiða sem ákveðið var nú í haust. Stofnunin leggur þó mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirra viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar og í ljósi rýmkaðs veiðitíma er ábyrgð veiðimanna mikil.

Greinargerð um veiðiþol rjúpnastofnsins 2019 (pdf, 0,9 MB)

Bréf til umhverfisráðherra (pdf, 0,2 MB)