Refastofninn réttir úr sér

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lokið við að endurmeta stærð íslenska refastofnsins fram til ársins 2018. Samkvæmt niðurstöðum var áætluð lágmarksstærð stofnsins um 8.700 dýr haustið 2018.

Niðurstöðurnar eru í samræmi við eldra mat frá árinu 2018 hvað varðar stofnbreytingar. Þannig óx stofninn úr sögulegu lágmarki árið 1979, náði hámarki árið 2008 en féll eftir það og var í lágmarki árið 2012 þegar refum fór að fjölga á ný. Þó bendir allt til að áður birt stofnstærð fyrir árin 2007–2008 hafi verið ofmetin og að refastofninn hafi verið tæplega 9.000 dýr þegar mest var en ekki 11.000 eins og áður var talið.

Ástæða þess að stofninn var metinn stærri en hann í rauninni var grundvallast á því að ekki voru til næg gögn til að styðja við forsendur á þeim tíma sem stofnmatið var birt. Vegna óvissu í gögnum eru öryggismörk ávallt víð fyrir síðustu árin sem matið nær til og því má telja líklegt að stofnstærð fyrir árið 2018 sé einnig ofmetin.

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á íslenska refastofninum byggjast að miklu leyti á góðu samstarfi við veiðimenn um allt land sem senda hræ af felldum dýrum til krufninga og aldursgreininga. Kann stofnunin þeim bestu þakkir fyrir. Þeir sem eru áhugasamir um að leggja sitt af mörkum til að halda vöktuninni áfram og gera hana sem vandaðasta eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um meðferð og sendingu á hræjum.

Fréttatilkynning Náttúrufræðistofnunar Íslands