Viðkomubrestur hjá rjúpunni í sumar

Náttúrufræðistofnun vaktar viðkomu rjúpunnar og það var gert á Vesturlandi og Norðausturlandi í lok júlí og byrjun ágúst nú í sumar. Viðkoma rjúpunnar á Norðausturlandi hefur aldrei verið lakari frá því mælingar hófust árið 1964 og á Vesturlandi var útkoman með því lakari frá því mælingar hófust sumarið 1995.

Í talningum á Vesturlandi fundust 34 kvenfuglar og 184 ungar. Hlutfall kvenfugla án unga var 13%, ungar á kvenfugl voru 5,41 og hlutfall unga í stofni 73%. Á Norðausturlandi fundust 64 kvenfuglar og 186 ungar. Hlutfall kvenfugla án unga var 44%, ungar á kvenfugl voru 2,9 og hlutfall unga var 59%). Hlutfall kvenfugla án unga var miklu hærra en nokkurn tímann áður og eins voru ungahópar þeirra mæðra sem enn héldu einhverjum ungum mun minni en oftast áður. Hér er rétt að benda á að kvenfuglar án unga hafa örugglega reynt varp en annað hvort afrækt á eggjatíma eða, sem líklegra er, að ungarnir hafa drepist frá þeim.

Væntanlega ræður hér mestu sú vætutíð sem einkennt hefur sumarið á Norðausturlandi. Marktæk fylgni er á milli úrkomu og vindafars og viðkomu rjúpunnar.

Rjúpnatalningar síðastliðið vor sýndu að rjúpnastofninn var í mikilli uppsveiflu víðast hvar (sjá frétt Rjúpnatalningar 2022). Viðkomumælingar sýna að nú hefur stofninn mætt mótbyr, staðan á Norðausturlandi er afleit og ekki heldur góð á Vesturlandi. Ekki er vitað um viðkomu rjúpunnar í öðrum landshlutum.

Sjá einnig fréttatilkynningu.