Fjöldi fugla og tegundafjölbreytni í þéttbýli

Nýlega birtist grein í tímaritinu „Journal of Urban Ecology“ sem fjallar um fjölbreytileika fugla í þéttbýli. Þar kemur meðal annars fram að fjöldi fugla og tegundafjölbreytni þeirra er meiri í görðum miðsvæðis í Reykjavík en á grænum svæðum í úthverfum borgarinnar.

Upplýsingar um fjölbreytileika fugla í þéttbýli geta komið að góðu gagni þegar spá á fyrir um heildarfjölbreytileika lífríkis á grænum svæðum í borgum. Græn svæði borga eru ólík að stærð, staðsetningu og aldri og geta haft áhrif á tegundafjölbreytni fugla sem þar búa. 

Í rannsókninni voru fuglar taldir og tegundaauðgi þeirra metin á 15 grænum svæðum í Reykjavík árið 2020 í þeim tilgangi að skoða sambandið á milli fjölbreytileika fugla og eiginleika grænna svæða. Svæðin voru ólík að stærð (<5 ha – 41 ha) og þau voru hvoru tveggja staðsett miðsvæðis og í úthverfum. Á tímabilinu mars til september var farið 13 sinnum á hvert svæði og þau borin saman hvað varðar fjölda fugla, tegundaauðgi, fjölbreytileikastuðul og jafnvægi milli tegunda. 

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er fjöldi fugla í miðaldra görðum í íbúðahverfum marktækt meiri en á grænum svæðum í úthverfum borgarinnar, auk þess sem fjölbreytileikastuðull og jafnvægi er meira. Ekki var marktækur munur á tegundafjölbreytni eftir stærð svæða, ólíkt því sem komið hefur fram í rannsóknum í öðrum borgum, til dæmis í London og Boston. Hins vegar kom í ljós að fjölbreytnin var meiri í gömlum og miðaldra görðum í miðbænum en í úthverfum. Ekki var mikill munur á fjölbreytni fugla eftir mánuðum. 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að við vöktun fugla í þéttbýli er mikilvægt að skoða bæði fjölda fugla og fjölbreytileika. Einnig benda höfundar á að athugunin sýni að við borgarskipulag megi ekki horfa framhjá mikilvægi lítilla þéttbýlisgarða.

Aðalhöfundur greinarinnar, Rebecca Thompson, vann að rannsókninni í meistaranámi sínu við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi hennar var Mariana Tamayo prófessor við Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi Snorri Sigurðsson sviðsstjóri náttúruverndar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Greinin er opin öllum á netinu:

Thompson, R., M. Tamayo og S. Sigurðsson 2022. Urban bird diversity: does abundance and richness vary unexpectedly with green space attributes? Journal of Urban Ecology 8(1): juac017. DOI: 10.1093/jue/juac017