Rannsóknir á snarrótarpunti og náskyldum flokkunareiningum

Grein um niðurstöður rannsóknarverkefnis um snarrótarpunt, Deschampsia cespitosa, og náskyldum flokkunareiningum í Evrópu hefur nýlega verið birt í tímaritinu Botanical Journal of the Linnean Society.

Erfðafræðilegar rannsóknir sýna að íslenski snarrótarpunturinn tilheyrir vestur-skandinavískum hóp plantnanna og það virðist augljóst að hann hafi borist frá vesturhluta Mið-Evrópu og numið land á Íslandi, Bretlandi, Írlandi og Vestur-Skandinavíu eftir síðasta jökulskeið. Á Íslandi er flokkunareining D. cespitosa subsp. cespitosa algeng um nær allt land. Tegundin finnst mjög oft nálægt byggð og bendir það til þess að dreifing af mannavöldum hafi einnig getað átt þátt í landnámi tegundarinnar á Íslandi.

Önnur flokkunareining sem vex á Íslandi, fjallapuntur, Deschampsia alpina (L.) Roem. & Schult. (eða Deschampsia cespitosa subsp. neoalpina Chiapella, Xue & Greimler), var einnig rannsökuð. Fjallapuntur er náskyldur snarrótarpunti og vex einkum til fjalla. Hann finnst þó einnig á láglendi sums staðar á landinu og vex þá einkum í blautu landi, bæði í mólendi og meðfram lækjum í klettabeltum.

Frá erfðafræðilegu sjónarhorni eru þessir fjallastofnar ólíkir, ekki aðeins evrópskum snarrótarpunti heldur einnig plöntum af sömu flokkunareiningu sem safnað var í fjallahéruðum Mið-Evrópu. Það gæti bent til þess að þessi flokkunareining sé eldri í landinu og hafi orðið fyrir minna áhrifum af erfðafræðilegri blöndun af mannavöldum. Enn fremur sýna rannsóknirnar að fjallapuntur er verulega aðgreindur frá öllum sýnum af snarrótarpunti, D. cespitosa subsp. cespitosa, jafnvel þegar plönturnar vaxa á sama stað. Það bendir til þess að hindranir séu á genaflæði á milli þessara tveggja flokkunareininga.

Pawel Wasowicz, grasafræðingur, tók þátt í rannsóknarverkefninu ásamt vísindamönnum frá Austurríki, Argentínu, Rússlandi og Sviss. Tímaritið The Botanical Journal of the Linnean Society þróaðist frá elsta líffræðitímariti í heimi, Transactions of the Linnean Society, þar sem fyrstu greinar eftir Darwin og Wallace voru gefnar út. Það er nauðsynlegt rit fyrir alla þá sem nú starfa á sviði grasafræði.

Greinin er opin öllum á netinu:

Xue, Z., J.O. Chiapella, O. Paun, P. Volkova, M. Peintinger, P. Wasowicz, N. Tikhomirov, M. Grigoryan, M.H.J. Barfuss og J. Greimler 2023. Phylogeographic patterns of Deschampsia cespitosa (Poaceae) in Europe inferred from genomic data. Botanical Journal of the Linnean Society: boac067. DOI: 10.1093/botlinnean/boac067