Rannsóknasjóður Rannís hefur samþykkt að veita 53 milljóna króna styrk til rannsókna á stofngerð íslensku tófunnar og stöðu hennar á þremur svæðum á landinu, en úthlutunarfundur sjóðsins fór fram í dag. Rannsókninni er stýrt af Ester Rut Unnsteinsdóttur spendýravistfræðingi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands en verkefnið verður unnið í samstarfi við Snæbjörn Pálsson prófessor í stofnlíffræði við Háskóla Íslands, Bruce J. McAdam, sjálfstætt starfandi vísindamann frá Edingborg og Nicolas Lecomte prófessor við Háskólann í Moncton í Kanada. Að verkefninu kemur einnig Anna Bára Másdóttir doktorsnemi í líftölfræði við Háskóla Íslands, ásamt fleirum.
Rannsóknin er til þriggja ára og ber vinnutitilinn Stofngerð, stofnbreytingar og lífvænleiki hánorræns afræningja undir álagi af völdum veiða og umhverfisbreytinga. Verkþættir fjalla í meginatriðum um greiningu á stofngerð íslensku tófunnar og stöðu hennar í fæðuvef á þremur landsvæðum þaðan sem gögn hafa safnast um refi í gegnum tíðina úr veiðum og mælingum, auk þess sem þekking liggur fyrir á fuglalífi.
Unnið verður úr gögnum sem safnast hafa á yfir 40 ára tímabili vöktunar refastofnsins auk þess sem nýrra gagna verður aflað. Jafnframt verður unnið með veiðigögn frá Umhverfisstofnun, sem ná aftur til ársins 1957. Farið verður í gerð stofnlíkans og áhrifum veiða, með Bayesian-miðaðri tölfræði. Unnin verður greining á fæðu með stöðugum samsætum og lögun kjálkabeina með notkun sérhannaðs R-pakka. Erfðaefni verður greint og borið saman innan og á milli svæða og síðast en ekki síst verður fylgst með ferðum refa með notkun senditækja. Samið verður við valda veiðimenn til aðstoðar við að fanga og meðhöndla dýr sem fá senditæki. Í tengslum við þetta verkefni hefur verið sótt um aðra styrki til kaupa á senditækjum fyrir refi.
Verkefnið er í umsjá Náttúrufræðistofnunar Íslands og fer öll umsýsla þess fram á vegum stofnunarinnar. Styrkurinn er mikilvægur og mun leiða til aukinnar þekkingar á stofngerð tófunnar, frumbyggja landsins, og þeim áhrifum sem umhverfisbreytingar og mikið veiðiálag hefur á þetta lífseiga litla rándýr.