Fuglamerkingar 2021

Út er komin skýrsla um fuglamerkingar á Íslandi árið 2021. Alls voru merktir 17.713 fuglar af 73 tegundum og voru merkingamenn 49 talsins. Langmest var merkt af auðnutittlingum, tæplega helmingur fuglanna. Alls bárust 3.240 tilkynningar um endurheimtur og álestra af íslenskum merkjum.

Heildarfjöldi merktra fugla var um meðaltal fimm undangenginna ára. Merktir voru 8.667 auðnutittlingar sem er metfjöldi í auðnutittlingsmerkingum. Næstmest var merkt af skógarþröstum eða 2.077 fuglar. Ein ný tegund var merkt á árinu, grænsöngvari, og með því hafa 166 tegundir verið merktar hér á landi frá upphafi.

Tilkynnt var um 3.420 endurheimtur íslenskra merkja og þar af voru 3.080 fuglar sem endurveiddir voru á merkingarstað. Fuglar sem fundust í að minnsta kosti 1 km fjarlægð frá merkingarstað voru 287 talsins og 52 íslensk merki fundust erlendis. Þá fundust 53 erlend merki hér á landi en upprunalönd þeirra eru Bretlandseyjar, Holland, Frakkland, Jersey, Noregur, Portúgal og Spánn. 

Óvenjufáar langferðir voru meðal endurheimta ársins. Má þar helst nefna sílamáf sem fannst veikur og var hjúkrað á Tenerife, 4.018 km frá merkingarstað. Þá fannst jaðrakan sem merktur var á Spáni árið 2007 í Fnjóskadal, 3.071 km frá merkingarstað. Loks fannst urtönd á hreiðri við Víkingavatn en sú var merkt í Portúgal árið 2018, 3.069 km frá hreiðri sínu. Þetta er fyrsta urtöndin sem vitað er um sem gerir sér ferð á milli þessara landa.

Talsvert var af merktum fuglum sem heimsóttu nýjar slóðir. Má þar nefna fyrstu íslensku grágæsina sem sást í Danmörku og tvær íslenskar maríuerlur sem sáust í fyrsta sinn í Þýskalandi og Belgíu. Annar íslenski auðnutittlingurinn sem fundist hefur erlendis var merktur í garði í Breiðholti og endurveiddur í Noregi. Þriðji auðnutittlingur merktur í sama garði endurveiddist í Skotlandi.  

Aðeins eitt aldursmet var hefur fundist í merkingagögnum 2021. Það er auðnutittlingur sem merktur var í garði á Akureyri árið 2015, þá að minnsta kosti rúmlega eins og hálfsárs. Fuglinn endurheimtist í nágrenningu í janúar 2021, nærri sex árum síðar. Þá var hann orðinn að minnsta kosti sjö ára og eins mánaðar gamall.

Nánari upplýsingar um fuglamerkingar 2021 er að finna í skýrslunni Fuglamerkingar 2021.