Ný fræðigrein um rannsóknir á erfðamengi hafarna

Nýlega kom út fræðigrein eftir hóp evrópskra vísindamanna í tímaritinu Molecular Ecology sem fjallar um rannsókn á erfðamengi hafarna í nokkrum löndum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna meðal annars að erfðabreytileiki íslenska stofnsins er mjög lítill og skyldleiki á milli einstaklinga hár. 

Í ljós kom að mestur munur á erfðamengi hafarna er á milli eyjanna Grænlands og Íslands annars vegar og meginlandsstofnanna í Danmörku, Noregi og Eistlandi hins vegar. Eyjastofnarnir tveir eiga rætur að rekja til sama meginlandsstofnsins, sem er ólíkur öðrum meginlandsstofnum hafarna sem skoðaðir voru. Þrátt fyrir möguleika á blöndun hafarna milli Íslands og Grænlands kom í ljós að stofnarnir tveir eru vel aðskildir hvor frá öðrum og einkennast báðir af skyldleikarækt og erfðafræðilegri einsleitni. 

Íslenskum haförnum var nær útrýmt af mannavöldum í byrjun síðustu aldar og í kringum 1920 voru varppör aðeins um 20 talsins. Fuglunum fór ekki að fjölga fyrr en bann var sett við því að bera út eitruð hræ í þeim tilgangi að koma refum fyrir kattarnef en það bann tók gildi 1964. Nokkrum árum síðar fór stofninn að taka við sér, hefur vaxið jafnt og þétt og telur nú um 90 varppör. 

Frjósemi hafarna á Íslandi er lág samanborið  við önnur lönd og gæti skyldleiki innan arnarstofnsins verið ástæðan fyrir því. Einsleitni í erfðamengi arnanna getur einnig aukið hættuna á því að skaðlegar stökkbreytingar festist í sessi og valdi stofninum skaða. Skyldleiki arnanna gerir þá einnig verr í stakk búna til að aðlagast ýmsum breytingum, eins og að takast á við nýja sjúkdóma, loftslagsbreytingar og fleira.

Rannsóknin sýndi einnig að í tímans rás hafa allir stofnanir sem skoðaðir voru minnkað og eru nefndir fjórir sögulegir atburðir sem gætu haft áhrif þar á: (1) einangrun búsvæða á síðasta jökulskeiði fyrir 110–115 þúsund árum, (2) fólksfjölgun á þeim svæðum sem komu undan ísaldarjöklinum  fyrir um 10 þúsund árum, (3) fólksfjölgun sem leiddi til landnáms á Íslandi fyrir um 1.100 árum síðan og (4) ofsóknir manna og útburður eiturs á síðustu tveimur öldum.

Í rannsókninni var meðal annars unnið úr blóðsýnum úr íslenskum arnarungum sem byrjað var að safna árið 2001 í tengslum við verkefnið Vöktun arnarstofnsins sem unnið er að hjá Náttúrufræðistofnun Íslands undir stjórn Kristins Hauks Skarphéðinssonar dýravistfræðings. Tilgangur blóðsöfnunarinnar hefur meðal annars verið að skoða hvort innæxlun í arnarstofninum gæti mögulega átt þátt í hægum vexti stofnsins. 

Rannsóknin var unnin sem hluti af doktorsverkefni Charles Christian Riis Hansen undir stjórn Snæbjörns Pálssonar prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Greinin er opin öllum á netinu:
Hansen C.C.R., Á.J. Láruson, J.A. Rasmussen, J.A.C. Ballesteros, M.-H.S. Sinding, G.T. Hallgrimsson, M. von Schmalensee, R.A. Stefansson, K.H. Skarphédinsson, A.L. Labansen, M. Leivits, C. Sonne, R. Dietz, K. Skelmose, D. Boertmann, I. Eulaers, M.D. Martin, A.S. Helgason, M.T.P. Gilbert og S. Pálsson 2023. Genomic diversity and differentiation between island and mainland populations of white-tailed eagles (Haliaeetus albicilla). Molecular Ecology.