Styrkur til rannsókna á útbreiðslu hæruburstar

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlotið 1,8 milljóna króna styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsókna á útbreiðslu mosategundarinnar hæruburstar, Campylopus introflexus. Verkefninu er stýrt af Pawel Wasowicz grasafræðingi. 

Ísland býr yfir mörgum mismunandi vistkerfum sem eru einstök eða sjaldgæf á heimsvísu og hafa því sérstaka þýðingu þegar kemur að verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Jarðhitabúsvæði, það er jarðhitavistgerðir, eru gott dæmi um einstök vistkerfi sem ekki er hægt að finna á mörgum stöðum í heiminum. 

Hæruburst er innflutt mosategund sem barst til Evrópu árið 1942 frá suðurhveli jarðar en hún er útbreidd í suðurhluta Suður-Ameríku og Afríku og hluta Ástralíu, auk eyja í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi. Hér á landi var hæruburst staðfest í Mývatnssveit árið 1983 og í kjölfarið fannst hún á fleiri stöðum. 

Rannsóknir sem gerðar hafa verið í Evrópu sýna að hæruburst getur haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika með því að mynda þéttar breiður og ná þannig yfirhöndinni yfir staðbundnum gróðri. Sýnt hefur verið fram á að hún veldur fækkun innlendra tegunda í þurru graslendi og furuskógum og hefur neikvæð áhrif á spírun innlendra plöntutegunda. Einnig hefur verið sýnt fram á að mosinn breytir tegundasamsetningu dýralífs á svæðum þar sem hann nær fótfestu. 

Ástæða er til að gruna að hæruburst geti verið skaðleg líffræðilegum fjölbreytileika á íslenskum jarðhitasvæðum og ógnað fágætum jarðhitavistgerðum. Engar birtar, ritrýndar vísindalegar rannsóknir eru þó til um hæruburst á Íslandi og aðeins hafa verið gerðar takmarkaðar athuganir á tegundinni. Fram til þessa hefur hæruburst eingöngu verið staðfest á nokkrum stöðum á Reykjanesskaga, á Hengilssvæðinu, í Landmannalaugum og í Þingeyjarsveit. Engar birtar rannsóknir eru til um áhrif tegundarinnar á lífríki jarðhitasvæða.  

Markmið verkefnisins sem nú hefur hlotið styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar er að kortleggja útbreiðslu hæruburstar á jarðhitasvæðum, einkum háhitasvæðum, á Íslandi. Nákvæm gögn um útbreiðslu hæruburstar á jarðhitasvæðum munu liggja fyrir að rannsókn lokinni. Kortlagning útbreiðslu hæruburstar mun leggja grunn að frekari rannsóknum á vistfræði tegundarinnar á næstu árum. Jafnframt er fyrirhugað að leggja til aðgerðir sem miða að því að lágmarka áhrif hæruburstar á líffræðilegan fjölbreytileika jarðhitasvæða.