Veglegir styrkir úr Innviðasjóði Rannís

Hlotist hefur rúmlega 21 milljóna króna styrkur úr Innviðasjóði Rannís til tækjakaupa fyrir loftljósmyndastofu sem starfrækt er á Náttúrufræðistofnun Íslands. Styrkurinn er veittur til að kaupa sérhæfðan búnað fyrir myndatökur úr flugvélum ásamt því að uppfæra tölvubúnað og skjái sem tengjast gerð þrívíddarlíkanna og myndmælinga. Umsjónaraðili er Birgir Vilhelm Óskarsson jarðfræðingur en styrkurinn er fenginn í samstarfi við vísindamenn og starfsfólk Landmælinga Íslands, Jarðvísindastofnunar, Veðurstofu Íslands, Íslenskra orkurannsókna og Almannavarna ríkisins. 

Að auki var Náttúrufræðistofnun aðili að öðrum umsóknarhópi á vegum Háskóla Íslands sem hlaut ríflega 75 milljóna króna styrk úr sjóðnum fyrir svokallað IREI-verkefni sem snýst um uppbyggingu á öflugum innviðakjarna upplýsingatækni, sem er sérsniðinn fyrir íslenskt vísindastarf. Verkefnið er leitt af Guðmundi Kjærnested sviðsstjóra upplýsingatæknimála hjá Háskóla Íslands. IREI rekur ofurtölvur og gagnaský/gagnageymslur fyrir ýmsar stofnanir.  

Úthlutun styrkja úr Innviðasjóði Rannís