Gróðureldur við Óttarsstaði vestan við Straumsvík

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið gróðurskemmdir á landspildu við Óttarsstaði rétt vestan við Straumsvík í Hafnarfirði eftir elda sem loguðu þar 23.–25. mars. Svæðið sem brann var 9 ha að flatarmáli samkvæmt mælingum stofnunarinnar.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru á staðinn og skoðuðu skemmdir og mátu umfang brunna svæðisins. Það var að mestu leyti gömul tún og gróskumikið graslendi í nánd við frístundahús á svæðinu en einnig brann nokkuð svæði utan túnanna sem er að mestu leyti snöggvaxið land með krækilyngi, mosa, fléttum, blómjurtum og lágvöxnum grastegundum. Slíkt gróðurlendi á nútímahrauni kallast lynghraunavist samkvæmt vistgerðarflokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands og er oft nokkuð tegundafjölbreytt. Svæðið við Óttarsstaði er á náttúruminjaskrá (Strandlengjan frá Fögruvík að Straumi, nr. 111) vegna sérstæðs umhverfis og fjölskrúðugs lífríkis. Einnig eru friðaðar söguminjar við Óttarsstaði. Jarðirnar á þessu svæði voru áður nefndar einu nafni Hraunjarðir.

Eins og ávallt þegar um gróðureld er að ræða urðu skemmdir á lífríki svæðisins. Allar líkur eru þó á að graslendið verði fljótt að jafna sig eftir brunann en líklega mun það taka lynghraunavistina lengri tíma að jafna sig. Krækilyng, mosi og fléttur eru mun seinni að ná sér eftir bruna heldur en grös og jurtir sem vaxa upp af brumum í gróðursverði á hverju vori. Tré, runnar, lyng og mosar eru þeir plöntuhópar sem bruni hefur yfirleitt hvað mest áhrif á. Fléttur, sem eru oft nokkuð algengar í gróðri, fara einnig mjög illa í bruna þar sem þær vaxa afar hægt. 

Öflugt slökkvistarf leiddi til þess að ekki urðu meiri skemmdir á landi og lífríki. Gríðarlega mikilvægt er að fara varlega með eld þegar gróður verður mjög þurr eins og gerðist í marsmánuði á Suður- og Vesturlandi. Vætan undir lok mánaðarins á þessu landssvæði er því kærkomin og vernd fyrir gróður og annað lífríki.