Hrafnaþing: Skriðuföllin í Hörgárdal árið 1390 og afdrif Gásakaupstaðar

Á Hrafnaþingi miðvikudaginn 29. mars kl. 15:15–16:00, mun Halldór G. Pétursson jarðfræðingur flytja erindið „Skriðuföllin í Hörgárdal árið 1390 og afdrif Gásakaupstaðar“.

Erindið verður flutt í fundarherbergi R262 á 2. hæð í rannsókna- og nýsköpunarhúsi við Háskólann á Akureyri í Borgum. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams.

Í erindinu verður fjallað um hrinu mikilla skriðufalla á Hörgárdalssvæðinu, sem varð í tengslum við óhemju rigningar á norðan og vestanverðu landinu haustið 1390. Í þessum skriðuföllum eyddust bæir og mikil landspjöll urðu. Mikið eignatjón varð, 28 manns fórust og eflaust mikið af búpeningi. 

Heimildir um þessar hamfarir er að finna í gömlum annálum, fornum ritum og sögnum, en ekki síst í jarðlögum og landslagi auk fornleifa á svæðinu. Þessum ummerkjum verður lýst og fjallað um afleiðingar og hugsanleg áhrif hamfaranna, m.a. á hinn forna Gásakaupstað við Hörgárósa. 

Fyrirlesturinn byggir aðallega á vinnu sem farið hefur fram á síðustu árum og áratugum ýmist á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands eða Veðurstofu Íslands, vegna könnunar á farvegsbreytingum Hörgár, umhverfisbreytingum við Hörgárósa og Gáseyri og á ofanflóðaaðstæðum í Hörgárdal og Öxnadal.

 

Árið 2022 kom út grein eftir Halldór sem fjallar um skriðuföllin á Hörgárdalssvæðinu árið 1390. Greinin birtist í 19. hefti Heimaslóðar, Árbók Hörgársveitar:

Halldór G. Pétursson 2022. Skriðuföllin í Hörgárdal árið 1390 og afdrif Gásakaupstaðar: Staðreyndir, hugmyndir og tilgátur. Heimaslóð 19: 5-39.