Skýrsla um útbreiðslu innfluttra plöntutegunda meðfram vegum á hálendi Íslands

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gefið út skýrslu um rannsóknir á útbreiðslu innfluttra plöntutegunda meðfram vegum á hálendi Íslands en rannsóknirnar voru styrktar af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. 

Vegir og slóðar geta auðveldað landnám aðfluttra plöntutegunda inn á svæði þar sem þær hafa haft lítil áhrif í sögulegu samhengi vegna samvirkni nokkurra þátta meðfram vegum: aukin röskun, sundrung búsvæða, breyting á efnafræði jarðvegs, vatnafar og aukið rof, minni samkeppni og aukið magn fjölgunareininga (fræ og plöntuhlutar). Dreifing aðfluttra plöntutegunda á Miðhálendi Íslands hefur aldrei verið skoðuð áður á skipulagðan hátt. Miðhálendið, með erfiðum veðurskilyrðum og mjög stuttum vaxtartíma, er talið eitt af stærstu víðernum sem eftir eru í Evrópu. Hálendið er talið vera stærsta svæðið í Evrópu sunnan heimskautsbaugsins þar sem maðurinn hefur aldrei haft fasta búsetu. Engu að síður hefur hálendið verið undir áhrifum manna í meira en árþúsund og leiddu þau áhrif, ásamt síðasta kuldatímabili (1600–1900), til verulegra breytinga á gróðurþekju vegna aukins rofs og eyðimerkurmyndunar. Fyrri rannsóknir sýna að áhrif mannsins hafa ekki breytt samsetningu flórunnar og að svæðið gegnir því lykilhlutverki við að viðhalda náttúrulegu útbreiðslumynstri margra innlenda plöntutegunda á Íslandi.  

Alls var 21 aðflutt æðplöntutegund af 12 ættum skráð í öllum rannsóknarreitum, sem er 20% af öllum aðfluttum æðplöntutegundum sem skráðar eru á Íslandi. Landfræðilegur uppruni aðfluttra tegunda sem við höfum skráð meðfram hálendisvegum er svipaður og staðfest hefur verið á sambærilegum svæðum um allan heim þar sem evrópskar og asískar plöntur eru algengastar. Athyglisvert er að tré voru yfir 20% af aðfluttum tegundum meðfram hálendisvegum sem er mun hærra en heildarhlutfall trjáa í flóru Íslands, einnig mjög hátt í samanburði við aðflutta flóru fjalllendis/hálendis annars staðar í heiminum, þar sem aðfluttar trjátegundir eru mjög sjaldgæfar.  

Rannsóknir sýndu að tegundaauðgi aðfluttra plantna meðfram vegum er fyrst og fremst stjórnað af veðurfari og að hlýnunin mun vafalaust stuðla að breytingum í dreifingu framandi plantna með aukinni hæð sem og skilvirkari útbreiðslu núverandi stofna. Niðurstöður sýna að innfluttum tegundum fjölgaði verulega með aukinni umferð og auknum meðalíbúaþéttleika.  

Það er enginn vafi á því að vegakerfið innan hálendissvæðisins nýtist sem leið fyrir landnám aðfluttra plantna og útbreiðslu þeirra í kjölfarið og að áhrif vegakerfisins á viðkvæm vistkerfi hálendisins munu aukast verulega á næstu áratugum með hlýnun lofstags. Til að lágmarka áhættu sem tengist þessu ferli og forðast umhverfisspjöll voru lagðar fram sjö ráðleggingar sem gott er að hafa í huga við skipulagningu og framkvæmd hvers kyns starfsemi sem tengist vegamannvirkjum á íslenska hálendinu.  

Pawel Wasowicz, grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands stýrði rannsókninni. Með honum störfuðu Rannveig Thoroddsen, Olga Kolbrún Vilmundardóttir og Járngerður Grétarsdóttir sérfræðingar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, Starri Heiðmarsson og Einar. Ó. Þorleifsson frá Náttúrustofu Norðurlands vestra, ásamt Brynjólfi Brynjólfssýni nema hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.  

Skýrsluna má nálgast á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands:

Opna fjallvegir fyrir landnám innfluttra plöntutegunda á hálendi Íslands?