Kynningarfundur um jarðminjaskráningu

Kynningarfundur um jarðminjaskráningu verður haldinn hjá Náttúrufræðistofnun Íslands þriðjudaginn 9. maí, kl. 15–17 í húsakynnum stofnunarinnar að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ.

Jarðminjaskrá er gagnasafn af jarðfræðilegum fyrirbærum á Íslandi sem þykja áhugaverð og hafa vísindalegt mikilvægi. Skráning jarðminja er hluti af vinnu við undirbúning náttúrminjaskrár (B- og C-hluta) og er hún því einnig liður í að vernda jarðminjar sem þykja einstakar á heims- eða landsvísu. Þá eru jarðminjar yfirleitt stór þáttur í myndun landslags á Íslandi og skipa stórt hlutverk í landslagsvernd. 

Markmið jarðminjaskráningar er að fá heildstætt yfirlit yfir jarðminjar á Íslandi og stuðla að verndun þeirra sem teljast einstakar á grundvelli viðmiða eins og vísindagildis, fágætis, fegurðar og fleiri þátta.

Á kynningarfundinum verður sagt frá jarðminjaskráningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, greint frá því hvað er verið að skrá, hvernig jarðminjar eru flokkaðar og hvernig verndargildi þeirra er metið. Þá verður einnig kynnt leið til að koma ábendingum og skráningum til skila til stofnunarinnar, sem náttúruvísindafólk og áhugafólk um jarðminjar getur nýtt sér.

Dagskrá: 

•    Snorri Sigurðsson: Inngangsorð og hlutverk Náttúrufræðistofnunar við verndun og skráningu jarðminja.
•    Lovísa Ásbjörnsdóttir: Jarðminjaskráning, mat á gildi þeirra og næstu skref.
•    Ingvar Atli Sigurðsson: Dæmi um skráningu jarðminjasvæða.
•    Lovísa Ásbjörnsdóttir: Kynning á skráningu jarðminja um vef ni.is
•    Umræður

Kynningarfundinum verður streymt á Teams