Alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni er í dag

Í dag, 22. maí, er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Slagorð dagsins er „Frá samkomulagi til aðgerða: endurheimtum líffræðilega fjölbreytni.“

Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða tilveru okkar og framtíð og verndun hennar því eitt mikilvægasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Því miður hnignar fjölbreytileika lífríkisins um allan heim stöðugt og hratt. Umsvif mannsins eru þar meginorsökin, þar sem á sér stað yfirtaka búsvæða, mengun, útbreiðsla ágengra tegunda, ofnýting náttúrunnar, loftslagsbreytingar, fjölgun mannkyns og aðrar mannlegar athafnir. Að vernda líffræðilega fjölbreytni er því ein megináskorunin tengd sjálfbærri þróun, og er þungavigtaratriði í náttúrutengdum lausnum í ýmsum málaflokkum svo sem loftslagsmálum, heilbrigðismálum, matvæla- og vatnsvernd og sjálfbærri lífsafkomu. 

Á fimmtándu ráðstefnu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (COP-15), sem fram fór í Montreal, Kanada í desember 2022, var samþykkt ný stefna og aðgerðaáætlun til ársins 2030 með það að meginmarkmiði að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og stuðla að verndun, endurheimt og sjálfbærri nýtingu líffræðilegra auðlinda. Eitt meginmarkmið samkomulagsins snýst um að vernda og stjórna að minnsta kosti 30% af landi, innsævi, strandsvæðum og hafsvæðum, með áherslu á svæði sem eru sérstaklega mikilvæg fyrir líffræðilegan fjölbreytileika, virkni vistkerfa og þjónustu, fyrir árið 2030. Önnur markmið fjölluðu m.a. um endurheimt hnignaðra vistkerfa, að tryggja sjálfbærar veiðar á nytjategundum, að spyrna við útbreiðslu framandi ágengra tegunda, að draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á líffræðilega fjölbreytni, að innleiða markmið um líffræðilega fjölbreytni inn í skipulags- og nýtingaráætlanir á landi og í sjó og styðja við þjónustu vistkerfa og jákvætt samband okkar við lífríki jarðar.

Á alþjóðlegum degi líffræðilegrar fjölbreytni árið 2023 eru aðilar samningsins og hagsmunaaðilar hvattir til að innleiða stefnuna sem sett var á COP-15, grípa til aðgerða samkvæmt henni við að byggja aftur upp líffræðilega fjölbreytni sem hefur tapast og standa við loforðin sem sett voru fyrir árið 2030. Til þess að svo megi verða er margt sem þarf að gera, meðal annars: 

  • Stjórnvöld allra ríkja þurfa að þróa sín eigin markmið og setja í framhaldinu nauðsynleg lög, stefnur og áætlanir til að ná markmiðunum.
  • Styrkja þarf þekkingargrunn með bættum rannsóknum og miðlun upplýsinga.
  • Allir helstu atvinnugeirar þurfa að innleiða áherslur er snúa að verndun líffræðilegrar fjölbreytni inn í stefnumótun og verklag. Matvælaframleiðsla og iðnaður vega þar sérstaklega þungt en einnig t.d. ferðaþjónusta, menning, fjármálakerfið o.fl.
  • Fyrirtæki þurfa að meta og upplýsa um áhrif og snúa sér að sjálfbærum starfsháttum.
  • Allir þurfa að draga úr sóun og skipta yfir í sjálfbærari neyslu.
  • Leggja þarf aukið fjármagn í málaflokkinn til að auðvelda því að ná markmiðunum.
  • Skilgreina lykilvísa til að mæla stöðu og meta árangur aðgerða.

Alþjóðlegur dagur um líffræðilega fjölbreytni er mikilvægur dagur fyrir okkur öll til að staldra við og huga að áhrifum af okkar daglegu athöfnum á lífríki jarðar og hvernig okkar ákvarðanir skipta sköpum í að snúa við þeirri neikvæðu þróun sem við stöndum frammi fyrir í dag. En dagurinn er einnig mikilvægur til að fagna fjölbreytni lífríkisins og horfa í kringum okkur á þá fjölbreytni sem er í okkar nærumhverfi.

Vefur samningsins um líffræðilega fjölbreytni

Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni 2023