Fræðigrein um tannheilsu íslenskra refa

Í nýútkominni fræðigrein sem birtist í vísindatímaritinu Global Change Biology er greint frá rannsóknum á tannskemmdum í íslenskum heimskautarefum. Niðurstöðurnar sýna að hitastig undir frostmarki og harðskeytt veðurfar hefur slæm áhrif á tannheilsu.

Í rannsókninni voru skoðaðar tennur úr 854 refum frá 29 ára tímabili. Sú tilgáta var sett fram að árstíðabreytingar, sem geta haft áhrif á fæðuframboð og aðgengi að fæðu, hafi áhrif á ástand tanna þegar dýrin þurfa að breyta matarræði og velja sér minna æta bráð. Ástand tannanna var skoðað í tengslum við fjóra veðurfarsþætti: meðalhitastig að vetri, vísitölur El Niño fráviksins, vísitölur hafhringrásar N-Atlantshafsins (SPG) og fjölda daga sem rignir á snjó (ROS). Í ljós komu ótvíræðar vísbendingar um sterk áhrif árlegs loftslags á ástand tanna. Þannig voru tennur íslenskra refa í betra ástandi þau ár þegar vetrarhiti var hærri, þegar SPG var jákvæðara og þegar fjöldi ROS var lítill. Í rannsókninni komu einnig í ljós töluverð svæðisbundin áhrif þar sem refir frá Norðausturlandi voru með minni tannskemmdir en á tveimur stöðum á Vesturlandi. Í mótsögn við upphaflega tilgátu um að refir á Norðausturlandi, sem lifa gjarnan á hræjum stórra spendýra (t.d. sauðfjár og hesta), myndu sýna mestu tannskemmdirnar, virðist tennur í refum á Vesturlandi skemmast frekar vegna þess að kaldur vetur minnkar framboð á sjófuglum, sem aftur veldur því að refirnir velja hrjúfa fæðu eins og skeldýr og frosið þang. 

Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur tók þátt í rannsóknarverkefninu ásamt vísindamönnum frá Ísrael og Bandaríkjunum.

Greinin er öllum opin á netinu:

Geffen, E., G.W. Roemer, E.R. Unnsteinsdóttir og B. Van Valkenburgh 2023. Sub-zero temperatures and large-scale weather patterns induce tooth damage in Icelandic arctic foxes. Global Change Biology, 00, 1– 13. https://doi.org/10.1111/gcb.16835