Frjómælingar í júní

Tekið hefur verið saman yfirlit frjómælinga á Akureyri og í Garðabæ í júní. Á báðum stöðum var heildarfjöldi frjókorna langt undir meðallagi. Óvenjulítið hefur mælst af frjókornum það sem af er ári miðað við fyrri ár.

Á Akureyri voru frjókorn samfellt í lofti allan júnímánuð nema síðustu tvo dagana. Heildarfrjótalan var 419 frjó/m3 sem er vel undir meðalári (736 frjó/m3). 
Mest var um um grasfrjó (167 frjó/m3) en frjótími grasa hófst í byrjun júní. Næstalgengust frjókorna voru furufrjó (42 frjó/m3). Aðrar frjógerðir sem mældust að einhverju ráði á Akureyri í júní voru súrufrjó (29 frjó/m3), starafrjó (28 frjó/m3), netlufrjó (27 frjó/m3) og birkifrjó (23 frjó/m3). Alls greindust 17 frjógerðir. Frjótíma birkis er nú lokið og var heildartala þeirra aðeins 73 frjó/m3 sem er aðeins um 10% af meðaltali áranna 1998–2022 (713 frjó/m3). 

Í Garðabæ voru frjókorn einnig samfellt í lofti allan mánuðinn. Heildarfjöldi þeirra var 330 frjó/m3 sem er langt undir meðallagi (1.162 frjó/m3). Mest var um furufrjó (126 frjó/m3) eða tæpur helmingur af öllum frjókornum í mánuðinum. Frjótími grasa hófst nálægt miðjum júní og mældust 62 frjó/m3 í mánuðinum. Aðeins einu sinni áður hafa mælst svo fá grasfrjó í júní. Það sama á við um birkifrjó, sem hafa aldrei áður mælst svo fá. Frjótala þeirra var 23 frjó/m3. Aðrar frjógerðir sem mældust voru einkum netlufrjó (32 frjó/m3), súrufrjó (11 frjó/m3), starafrjó (16 frjó/m3) og yllifrjó (12 frjó/m3). Alls greindist 17 frjógerð í júní.

Búast má við áframhaldandi grasfrjóum í lofti það sem eftir lifir júlí og í ágúst.

Fréttatilkynning um frjómælingar júní 2023 (pdf)

Frjókornaspá