Mosabruni á gosstöðvunum við Litla-Hrút

Gróðureldar sem nú loga á gossvæðinu við Litla-Hrút hafa valdið umfangsmikilli gróðureyðingu og ljóst er að um mesta mosabruna er að ræða frá því skipulegar skráningar á gróðureldum hófust. Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands skoðuðu hluta svæðisins á dögunum til að leggja mat á áhrif brunans á gróður.

Vika er liðin síðan eldgos hófst við Litla-Hrút á Reykjanesi, þann 10. júlí 2023. Stuttu eftir að gosið hófst kom í ljós að gróðureldar brunnu í mosanum á gosstöðvunum. Mosabruninn breiddist hratt út til norðurs, austurs og suðurs og hafa umfangsmikilar gróðurskemmdir átt sér stað á svæðinu. Síðustu daga hefur verið unnið að því að slökkva gróðureldana og stendur það verkefni enn yfir. Ekki er ljóst hversu stórt svæðið er sem hefur orðið eldunum að bráð en þó er ljóst að gróðureldarnir eru með þeim umfangsmestu undanfarinna ára og er þetta þegar orðin mesti mosabruni sem orðið hefur frá því skipulegar skráningar á gróðureldum hófust. Til marks um útbreiðsluhraðann sýna loftmyndir sem starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands tóku 11. júlí að þá voru 15 ha brunnir en aðeins tveim dögum síðar, þann 13. júlí, voru 95 ha brunnir til viðbótar og mikið svæði hefur brunnið síðan þá.

Mikilvægt er út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum að hamla útbreiðslu gróðureldana. Þegar moslendi brennur verða mun meiri skemmdir á gróðrinum en þegar t.d. graslendi eða mýrlendi brennur og lífríkið í heild verður fyrir skaða við gróðurelda, s.s. smádýr og fuglar. Eftir mosabruna er landið albrunnið, þ.e. gróðurþekjan hverfur alveg og jarðvegurinn verður óvarinn. Því skapast hætta á því að landið geti blásið upp í kjölfarið en jarðvegur á svæðinu er fokgjarn vegna eldvirkni svæðisins. Að auki er mikilvægt fyrir umhverfið að ráða niðurlögum eldsins því við gróðurelda verður mikil losun á gróðurhúsalofttegundum.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru á vettvang skoðuðu hluta svæðisins þann 14. júlí og tóku meðfylgjandi myndir. Eins og sjá má á myndunum er svæðið mjög illa brunnið. Bruni í moslendi hefur meiri langtímaáhrif á gróður en bruni í graslendi eða mýrlendi. Þegar graslendi og votlendi brennur gerist það iðulega að vetri til og þurr sina síðustu ára brennur í burtu en grasrótin er varin ofan í sverðinum. Því verður tiltölulega hraður endurvöxtur eftir slíkan bruna. Þegar mosaþembur brenna brennur hins vegar öll mosaplantan í burtu þar sem mosin hefur engar rætur. Endurvöxtur mosa á svæðinu verður því aðeins með því að mosagró eða mosabrot berast á svæðið. Það mun því taka töluverðan tíma að mynda samfellda mosaþekju á svæðinu á ný. 

Lyng, runnar, trjágróður og fléttur skemmast líka mikið í bruna. Samkvæmt vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar Íslands er algengasta gróðurlendi eða vistgerð á svæðinu svokölluð mosahraunavist (þar sem mosinn er ráðandi, mosaþemba á hrauni) og lynghraunavist (þar sem lyngið er ráðandi). Það tekur lyng mislangan tíma að vaxa aftur í landinu. Krækilyng, sem er mjög algengt í þessum gróðurlendum á svæðinu, fer mjög illa í bruna og brennur alveg niður í rót. Grasvíðir, sem einnig er algengur á svæðinu, er hins vegar nokkuð fljótur að vaxa upp aftur þar sem rótarkerfi hans liggur dýpra í sverðinum.

Vonandi mun ekki koma til þess að það verði jarðvegseyðing á svæðinu í kjölfar þessa umfangsmikla mosabruna en viss hætta er á slíku og þarf að fylgjast vel með því. Það er þó bót í máli að svæðið er á fremur sléttu landi því ef um brattlendi væri að ræða væri hætta á að jarðvegurinn skolaðist í burtu. Ef ekki verður jarðvegseyðing mun svæðið væntanlega gróa upp aftur á einhverjum áratugum og ekki er ólíklegt að grös, starir og aðrar æðplöntur verði meira áberandi á svæðinu en það mun taka mosaþekjuna töluverðan tíma að myndast á ný. 

Það kraftmikla og harðfylgna slökkvistarf sem unnið hefur verið á svæðinu við erfiðar aðstæður skiptir miklu máli fyrir náttúruna og umhverfið og er það bót í máli að það skyldi takast að stemma stigu við ennþá meiri útbreiðslu mosabrunans.

Umfang gróðurelda við gosstöðvar við Fagradalsfjall endurmetið