Surtseyjarleiðangur Náttúrufræðistofnunar Íslands 2023
Árlegur rannsókna- og vöktunarleiðangur Náttúrufræðistofnunar Íslands var farinn dagana 14.-20. júlí. Í tilefni 60 ára afmælis Surtseyjar var leiðangurinn þétt skipaður og tvískiptur. Jarðfræðingar fóru að þessu sinni á undan líffræðingum og sinntu rannsóknum 14.–17. júlí. Þá urðu hópaskipti og dvöldu líffræðingar í eynni við rannsóknir til 20. júlí. Flutningur hópanna til og frá eyjunni var í höndum Landhelgisgæslunnar og Björgunarfélagsins í Vestmannaeyjum. Þátttakendur í leiðangrinum komu frá ýmsum stofnunum. Auk Náttúrufræðistofnunar Íslands voru þátttakendur frá Háskóla Íslands, Landmælingum Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Veðurstofu Íslands, Hellarannsóknafélagi Íslands, Háskólanum í Bergen, Doñana líffræðirannsóknastöðinni á Spáni og Umhverfisstofnun. Að auki voru fréttamenn í eynni við söfnun myndefnis í tilefni afmælisársins og tóku viðtöl við sérfræðinga. Leiðangurinn var sem áður skipulagður í samvinnu við Surtseyjarfélagið sem viðheldur skála og aðstöðu til rannsókna í Surtsey. Vel viðraði þessa daga, sólríkt og hlýtt en allnokkur vindur. Þá var eyjan öll mjög þurr en lítið hafði rignt undanfarnar vikur.
Rannsóknaleiðangur jarðfræðinga 14.–17. júlí
Leiðangur jarðfræðinga til Surtseyjar var farinn 14.–17. júlí. Auk jarðfræðinga frá Náttúrufræðistofnun Íslands voru sérfræðingar frá Landmælingum Íslands, Háskóla Íslands og Hellarannsóknafélagi Íslands, auk svæðissérfræðings Umhverfisstofnunar. Gagnaöflun var fjölbreytt og umfangsmikil, með mælingum á yfirborðsjarðhita, GPS-fastpunktum og aflögun, þrívíddarkortlagningu eyjarinnar með loftljósmyndun og hella með LiDAR.
Jarðhitamælingar
Mældur var yfirborðsjarðhiti í sprungum í Austur- og Vesturbunka, líkt og gert hefur verið reglulega síðan haustið 1969. Vel gekk við mælingarnar og tókst að mæla Austurbunka og eystri hluta Vesturbunka af mikilli nákvæmni og rekja nokkrar áður ómældar sprungur með þónokkrum hita. Vestar á Vesturbunka voru færri mælingar gerðar að þessu sinni en heitustu sprungurnar voru heimsóttar. Hiti mældist hæstur 92,1°C í Austurbunka, næst vitanum, en 98,5°C ofarlega í Vesturbunka.
Landmælingar og þrívíddarmyndataka
Eyjan var kortlögð með DJI M300-dróna og þrívíddarlíkan unnið út frá myndunum, það þriðja og nákvæmasta í röð slíkra líkana, en þau eldri eru frá 2019 og 2021. Með samanburði á þessum líkönum er unnt að fylgjast með breytingum á eynni vegna rofs og setmyndunar af mikilli nákvæmni.
Sett voru niður sex viðmiðunarmerki og mæld með nákvæmnis-GPS. Einnig voru sett niður og mæld tvö varanleg merki, eitt á þyrlupallinum og annað uppi á vitanum. Hæðin uppi á vita mældist 157,20 m og er það hæsti punktur á eyjunni.
Hellarannsóknir
Í fyrsta sinn bættist þrívíddarmyndun með LiDAR af hellum við myndmælingar í Surtsey. Þrívíddarmyndir þessar verða tengdar við líkan af yfirborði eyjarinnar og munu auka enn á upplýsingagildi þess, auk þess sem þær varðveita mikilvægar upplýsingar um viðkvæmar hraunmyndanir sem munu með tímanum verða sjávarrofi að bráð.
Hellirinn SUR03 var kortlagður í þrívídd og reynt að komast úr niðurfalli í rás sem liggur að sjávarhömrum sem og að síga niður hamrana en horfið frá vegna hrunhættu. Hellirinn SUR01 var einnig kortlagður og prófað að segulmæla rásina frá yfirborði. Þær mælingar gáfu skýrt útslag sem sýnir að hægt er að finna fleiri hella með segulmælingum. Strompurinn (SUR08) var einnig segulmældur. Athygli vakti að grænar og bleikar útfellingar sem lýst var í leiðangri Hellarannsóknafélags Íslands árið 1998 sáust ekki og þarf að kanna það betur.
Mælingar á aflögun
Mældur var hæðarprófíll þvert yfir eyna með fínhæðarmælingum, sá sami og hefur verið vaktaður síðan 1967. Fram til 1991 var hann mældur með óreglulegu millibili, tíðast fyrst en svo sjaldnar. Síðan 1991 hefur hann verið mældur með áratugs millibili, árin 2002, 2013, og nú 2023.
Breytingar á jarðmyndunum
Allmiklar breytingar sáust á jarðmyndunum frá síðasta leiðangri. Töluvert rof hefur orðið á vissum svæðum, bæði sjávarrof meðfram strandlengjunni og vind- og vatnsrof á móbergi, og verður það kortlagt betur með gögnum úr myndmælingum. Einnig hafa orðið talsverðar breytingar á tanganum nyrst á eynni. Þar er nú sendin fjara að austanverðu, þar sem áður var hnullungafjara.
Sýnasöfnun úr borholum
Dagana 17.–20. júlí var sýnum safnað úr borholum í Surtsey úr tilraun sem komið var fyrir í holu SE-02B tveimur árum áður til örverurannsókna. Erfitt reyndist að ná sýnum úr holunni en að endingu náðist helmingur þeirra. Hitastig var mælt í borholu SE-02B og nýrri tilraun komið fyrir í holunni.
Rannsóknaleiðangur líffræðinga, 17.–20. júlí
Hópur líffræðinga kom sjóleiðina í Surtsey 17. júlí. Í honum voru sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskólanum, Veðurstofunni, Doñana líffræðirannsóknastöðinni á Spáni auk svæðissérfræðings Umhverfisstofnunar. Þá var með í hópnum doktorsnemi frá Háskólanum í Bergen sem kom til að safna sýnum úr borholum.
Árleg vöktun á landnámi plantna og dýra fór fram á hefðbundinn hátt. Uppskerusýnum var safnað við fasta vöktunarreiti og fjöldi hreiðra talinn. Unnar voru mælingar á kolefnisjöfnuði, vistkerfisöndun og ljóstillífun, og niðurbrotspokum safnað. Eins voru endurkastsstuðlar mældir í föstum vöktunarreitum. Þá voru tekin plöntusýni til rannsókna á strandafbrigði skarifífils. Fuglar voru taldir á eyjunni allri og viðkoma þeirra metin. Fuglaskít og ælu var safnað til rannsókna frædreifingu með fuglum. Smádýrum var safnað í fallgildrur í vöktunarreitum og víðar, í tjaldgildru í máfavarpinu og þar að auki var háfað víða um eyna og safnað undan steinum, spýtum og öðru lauslegu.
Gróður
Eyjan var mjög þurr en ekki hafði rignt síðan í lok júní. Þá var allhvasst og gengu sandrokur yfir eyna. Bar gróður þess nokkur merki. Alls fundust 58 tegundir æðplantna á lífi en fimm tegundir voru horfnar frá síðasta ári; þær voru fitjaskúfur (Eleocharis quinqueflora), vallarfoxgras (Phleum pratense), mýrasef (Juncus alpinoarticulatus subsp. alpestris), friggjargras (Platanthera hyperborea) og vætudúnurt (Epilobium ciliatum). Frá 2020 hefur háplöntutegundum því fækkað um 13%. Greinilegt var að stofnar nokkurra tegunda höfðu hrunið frá síðasta ári. Hér má nefna geldingahnapp (Armeria maritima) og bjúgstör (Carex maritima). Eins var óvenju lítið um hundasúru (Rumex acetocella). Stofn hélublöðku (Atriplex spp.) minnkaði verulega frá í fyrra en tvær plöntur fundust í suðvesturhluta eyjunnar. Miklar skemmdir voru á krækilyngi (Empetrum nigrum) í eynni suðaustanverðri. Hins vegar hefur stofn hóffífils (Tussilago farfara) meira en tvöfaldast frá síðasta ári en í gjósku við gíginn Surt fundust 36 plöntur en 16 plöntur fundust sumarið áður. Skoða þarf betur hvaða ástæður liggja að baki svona miklum afföllum á flóru Surtseyjar undanfarið. Líklegt er að þurrkatíð hafi gert plöntum erfitt fyrir en mælingar á rakainnihaldi jarðvegs hafa aldrei sýnt eins lág gildi frá 2004.
Surtsey er eyja mikilla andstæða í gróðurfari. Í máfavarpinu er iðagrænt, uppskerumikið graslendi enda veitir viðvera fuglanna gróðri ríkulega næringu. Aðra sögu er að segja af sandorpnum hraunum utan varpsins þar sem stöku æðplöntu er að finna og helst er að sjá mosa og fléttur á stangli. Þá gagnast ekki stórvirkar vinnuvélar við uppskerumælingar. Uppskerusýnum er safnað fjórða hvert ár og spannar mæliröðin nú um aldarfjórðung.
Fuglar
Fuglalíf virtist með ágætum í eynni, alls sáust 19 tegundir fugla. Tegundaskipting er greinileg í máfabyggðinni en sílamáf (Larus fuscus) var aðallega að finna í austurhluta varpsins allt inn í gróft apalhraunið sunnan Pálsbæjar. Silfurmáfur (Larus argentatus) er fyrir miðju varpsins og svartbakurinn (Larus marinus) er áberandi í vesturhluta þess þar sem gróður er nú þéttastur. Stakir hvítmáfar (Larus hyperboreus) sáust í byggðinni. Svartbaksvarp er jafnframt í melgresinu á norðurtanganum. Við mat á viðkomu í máfabyggðinni að kveldi til voru taldir 57 fullorðnir sílamáfar, 45 silfurmáfar og um 200 fullorðnir svartbakar. Í talningunni sást jafnframt grágæsapar (Anser anser) með tvo stálpaða unga. Tvö hreiður æðarfugls (Somateria mollisima) fundust í melgresinu á tanganum en varpárangurinn er óviss. Dauður æðarbliki fannst á sama svæði. Stök æðarkolla sást við tangann og ársgamall bliki.
Fýll (Fulmarus glacialis) verpur víða uppi á eyjunni en hreiðurtalningar við vöktunarreiti benda til fækkunar. Lundi (Fratercula arctica), rita (Rissa tridactyla) og teista (Cepphus grylle) sáust í björgum meðfram eynni en ekki var hægt að staðfesta varp.
Fjórir hrafnar (Corvus corax) voru í eynni, par með tvo unga. Gömlu laupstaðirnir voru ekki virkir en líklega er nýr varpstaður í móbergsklettum ofan Pálsbæjar. Af spörfuglum mátti telja fjögur óðöl snjótittlinga (Plectrophenax nivalis), fimm óðöl maríuerlu (Motacilla alba) og þúfutittlings (Anthus pratensis) auk þriggja óðala steindepils (Oenanthe oenanthe). Þá sást til skógarþrastar (Turdus iliacus) fljúga úr hraungjótu í máfavarpinu og heiðlóa (Pluvialis apricaria) og sendlingur (Calidris maritima) sáust í eynni. Undir brottför frá eyjunni sáust nokkur þúsund óðinshana (Phalaropus lobatus) í fæðuöflun meðfram ströndinni.
Smádýr
Þurrkur, hlýindi og töluvert rok hafði áhrif á smádýrin. Vegna veðurs fór tjaldgildra ekki upp fyrr en 15. júlí. Erfitt reyndist að finna smádýr undir lauslegum hlutum í jaðri máfavarpsins (í Nýlendu) og á tanganum. Mítlar, mordýr og sniglar voru vart sjáanleg utan við máfavarpið. Gullsmiður (Amara quenseli) sem er dæmigerð bersvæðistegund fannst víða þar sem gróðurþekja var lítil. Leirtíta (Salda littoralis) var áberandi í Nýlendu sem er nokkuð óvenjulegt. Sandygla (Hypocoena stigmatica) fannst rétt við Pálsbæ í melgresi sem er fæðuplanta tegundarinnar. Sandygla hefur sérstaka heimsútbreiðslu. í Evrópu finnst tegundin aðeins á Íslandi og í Færeyjum.
Langleggur sem fannst fyrst 2019 hefur dreift vel úr sér og fannst víða, meðal annars í Surtungi. Nokkrar flækingstegundir fundust þar á meðal gömul og snjáð gammaygla (Autographa gamma) sem fannst í máfavarpinu og nokkuð var um sveifflugu sem nefnist beltasveifa (Episyrphus balteatus) á tanganum og í máfavarpinu. Ný fiðrildategund fannst í Surtsey, lyngfeti (Eupithecia nanata), tegundin lifir á beitilyngi sem hefur ekki fundist í Surtsey. Það verður að teljast ólíklegt að lyngfeti nái þar fótfestu. Fullvaxin ertuygla (Ceramica pisi) fannst í fyrsta skiptið, tegundin hefur yfirleitt fundist en aðeins sem ungviði. Í máfavarpinu og Nýlendu voru nokkrar fiðrildategundir á borð við túnfeta (Xanthorhoe decoloraria), grasvefara (Eana osseana) og reyrslæðu (Crambus pascuella). Flikruvefari (Cochylis dubitana) sem fannst fyrst 2015 var í miklum fjölda.
Gersemi Surtseyjar, eyjarani (Ceutorrhynchus insularis) fannst eftir mikla leit en fæðuplanta eyjarana, skarfakál (Cochlearia officinalis), leit ekki vel út eftir mikla þurrka. Ein húshumla (Bombus lucorum) fannst í ár, hún sást næra sig á blóðbergi (Thymus praecox), eintaki var ekki safnað.
Folafluga sem fannst í fyrsta skiptið 2022 fannst ekki í ár, lirfur folaflugu þurfa töluverðan raka til að þroskast og eyjan var ekki að bjóða upp á slíkar aðstæður. Á sandorpnum hraunum fannst víðiglæða (Pyla fusca) víða. Rákafritta (Thaumatomyia glabra) er smávaxin og glæsileg tvívængja sem fannst fyrst í rannsóknarleiðangri Náttúrufræðistofnunar Íslands 2017 síðan þá hefur tegundin dafnað vel og fannst hún víða um eyjuna. Eflaust leynist eitthvað fleira áhugavert í fallgildru- og tjaldgildrusýnum en úrvinnsla úr þeim er ekki hafin.
Veðurstöð
Sjálfvirka veðurstöðin fékk yfirhalningu en stöðin var sett upp í eynni vorið 2009. Úrkomumælir var lagaður, settur upp nýr vindmælir og rafgeymir endurnýjaður. Er nú aftur komið lag á stöðina og sendir hún stöðugt upplýsingar um veður í eynni og ljósmyndir inn á vef Veðurstofunnar.
Nýir liðsmenn í Surtsey
Helmingur hópsins var að stíga á land í Surtsey í fyrsta sinn. Þar á meðal Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, starfsmaður Umhverfisstofnunar, en hún hefur tekið við eftirliti í eynni af Magnúsi Frey Sigurkarlssyni. Meðal verka hennar var að skrá rusl í fjörum á norðurtanganum en strönd Surtseyjar er vöktuð samkvæmt aðferðafærði OSPAR, sem er samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins.
Jarðfræðileiðangur skipuðu:
Birgir V. Óskarsson, Náttúrufræðistofnun Íslands, leiðangursstjóri
Chiara Lanzi, Háskóla Íslands
Erik Sturkell, Háskóla Íslands
Guðmundur Valsson, Landmælingum Íslands
Guðni Gunnarsson, Hellarannsóknafélagi Íslands
Jón Atli Magnússon, Hellarannsóknafélagi Íslands
Kristján Jónasson, Náttúrufræðistofnun Íslands
María Helga Guðmundsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík
Matthías S. Alfreðsson, Náttúrufræðistofnun Íslands
Valdimar Kristjánsson, Umhverfisstofnun
Líffræðileiðangur skipuðu:
Olga Kolbrún Vilmundardóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands, leiðangursstjóri
Pawel Wasowicz, Náttúrufræðistofnun Íslands
Matthías S. Alfreðsson, Náttúrufræðistofnun Íslands
Svenja N.V. Auhage, Náttúrufræðistofnun Íslands
Bjarni Diðrik Sigurðsson, Landbúnaðarháskóli Íslands
Andy J. Green, La Estación Biológica de Doñana
Hannah Babel, Háskólinn í Bergen
Hákon Halldórsson, Veðurstofa Íslands
Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, Umhverfisstofnun
Kjartan Þorbjörnsson, Iceland Review