Þrívíddarlíkan af gossvæðinu á Reykjanesskaga

Fyrsta þrívíddarlíkanið af gossvæðinu við Litla-Hrút á Reykjanesskaga hefur nú verið birt. Það er unnið út frá ljósmyndum sem teknar voru úr lofti 13. júlí.

Jarðfræðikortlagning með myndmælingatækni, þar sem teknar eru ljósmyndir úr lofti og myndirnar notaðar við gerð þrívíddarlíkana, nýttist vel við kortlagningu á gossvæðinu í Geldingadal á Reykjanesi árin 2021 og 2022 og nú árið 2023 við Litla-Hrút, en með þrívíddarlíkönunum má fylgjast með framvindu gossins, áætla rúmmál og þykkt hrauna, hraunrennsli og margt fleira. Fyrsta myndgreiningarlíkanið af gosinu við Litla-Hrút er unnið út frá ljósmyndum sem teknar voru í gær, 13. júlí, en fleiri líkön munu bætast í safnið eftir því sem eldgosinu vindur fram.

Þrívíddarlíkönin eru fyrst og fremst ætluð til fróðleiks og skemmtunar en hægt er að hafa samband við stofnunina til að fá nákvæmari gögn.