Frjómælingar í júlí

Á Akureyri var hiti í júlí tæpum 2 stigum undir meðallagi síðustu 10 ára og úrkoma einungis 75% af meðalúrkomu áranna 1991-2020. Heildarfjöldi frjókorna var 541 frjó/m3 eða mikið undir meðaltali 1998–2022 sem er 917 frjó/m3. Frjókorn voru samt samfellt í lofti allan mánuðinn og voru flest þann 30. júlí, eða 120 frjó/m3. Fjöldi frjókorna fór fjórum sinnum yfir 50 frjó/m3 og einu sinni yfir 100 frjó/m3.

Langflest frjókorna voru grasfrjó, 476 frjó/m3 en meðaltal þeirra í júlí er 693 frjó/m3. Þau voru 88% allra frjókorna í júlí og fóru hæst í 119 frjó/m3 þann 30. júlí. 

Súrufrjó mældust aðallega fyrri hluta júlímánaðar og fóru hæst í 4 frjó/m3 þann 8. júlí. Heildarfjöldi súrufrjóa var 17 frjó/m3, næstflest á eftir grasfrjóum. Minna mældist af öðrum tegundum frjókorna.

Í Garðabæ var hiti í júlí jafn meðalhita síðustu 10 ára og sólskinsstundir óvenju margar. Mánuðurinn var óvenjulega þurr, einungis 35% af meðalúrkomu áranna 1991-2020. Heildarfjöldi frjókorna í júlí í Garðabæ var einungis 582 frjó/m3, en meðaltalið fyrir júlí er 901 frjó/m3. Frjó mældust alla daga mánaðarins en bara einu sinni fór frjótalan yfir 50, hæst  27. júlí þegar mældust 63 frjó/m3. Það voru aðallega grasfrjó sem mældust þann dag.

Langflest frjókornanna í júlí voru grasfrjó, 348 frjó/m3, mikið undir meðaltalinu sem er 641 frjó/m3. Þau voru tæp 60% allra frjókorna í júlí. Flest grasfrjó mældust 27. júlí eða 56 frjó/m3.

Súrufrjó voru næstalgengust á eftir grasfrjóum, eða 77 frjó/m3. Þau mældust alla daga og fóru hæst í 7 frjó/m3 þann 16. júlí. Af öðrum frjókornum mældist minna.

Grasfrjó geta mælst í ágúst í töluverðu magni bæði norðan og sunnan heiða ef veðurskilyrði eru þeim hagstæð.

Fréttatilkynning um frjómælingar júlí 2023 (pdf)

Frjókornaspá