Fræðslumyndasögur um líffræðilega fjölbreytni

Gefnar hafa verið út tvær fræðslumyndasögur um líffræðilega fjölbreytni á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þær eru afrakstur verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna en markmið þess var að þróa hugmyndina um notkun myndasagna í uppfræðandi tilgangi.

Myndasögum hefur vaxið fiskur um hrygg sem miðill undanfarna áratugi og á liðnum árum hefur færst í aukana að stuttar myndasögur séu notaðar fyrir fréttaflutning og fréttaskýringar. Á Íslandi er myndasagnagerð í uppfræðandi tilgangi vannýtt nálgun og því vaknaði sú hugmynd að þróa hugmyndina um myndasögur til almennrar fræðslu um mikilvæg málefni. Þær eru ætlaðar til að mæta ákveðinni fræðsluþörf en nýsköpunargildi verkefnisins er ekki síður fólgið í formi fræðsluefnisins, sem getur vonandi skapað einhverskonar fyrirmynd fyrir annað fræðsluefni.

Hvatinn fyrir því að velja líffræðilega fjölbreytni sem viðfangsefni myndasagnanna er dreginn af átaki vísindasamfélagsins, Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana til að vekja athygli á mikilvægi þess að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og sporna gegn hnignun hennar, enda er hún forsenda þess að jörðin sé byggileg mönnum. Dýr, plöntur, sveppir og bakteríur binda kolefni, veita flóðvarnir og tryggja hringrásir næringarefna fyrir landbúnað svo fátt eitt sé nefnt. Styrkustu varnir heimsins gegn áhrifum loftslagsbreytinga eru fólgnar í líffræðilegri fjölbreytni heimsins. Til að hvetja til aukinnar vitundarvakningar hafa Sameinuðu þjóðirnar meðal annars tileinkað árunum 2021–2030 endurheimt vistkerfa.

Eins og staðan er stendur líffræðileg fjölbreytni heimsins í hnignun og um heim allan deyja tegundir mun hraðar út en eðlilegt þykir. Hnignunin er afleiðing beinna og óbeinna afskipta mannsins af náttúrunni, svo sem landnýtingar, mengunar, ofveiða og margs fleira. Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni er stórtækur vandi með margþátta afleiðingar sem eru taldar vera ekki síður hættulegar en loftslagsvandinn. Þrátt fyrir mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni fyrir mannlegt samfélag hefur borið lítið á umfjöllun um hnignun hennar miðað við umræðu um önnur bítandi málefni. Til að bæta gildismat og viðhorf almennings til auðæfanna sem felast í líffræðilegri fjölbreytni þarf meiri umræðu og miðlun þekkingar. 

Fræðslumarkmið myndasagnanna eru að töluverðu leyti unnin úr Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa sem gefin var út í september 2022. Myndasögurnar tvær sem nú hafa verið birtar eru almenns eðlis og þjóna sem eins konar inngangur að umræðunni um líffræðilega fjölbreytni og hnignun hennar um heiminn. Lagt var upp með að textinn skyldi vera sem aðgengilegastur og við hæfi eldri lesenda ekki síður en yngri. Ritaði textinn er þó ekki svo einfaldur í orðavali að hann gæti talist vera við hæfi yngstu stiga grunnskóla. Textinn ætti að vera við hæfi eldri stiga grunnskóla, menntaskólanema og fullorðinna einstaklinga sem hafa ekki mikla þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni. Vonandi höfðar þó myndræna efnið einnig til barna. Leitast var við að nota málsnið sem samræmist íslenskri málstefnu.

Verkefnið var unnið af Völu Steingrímsdóttur, nema í sjónrænni sögugerð í The Animation Workshop sem er hluti af háskólanum VIA í Danmörku og Unnari Inga Sæmundarsyni íslenskufræðingi og nýnema í MA ritlist við Háskóla Íslands. Umsjónarmenn verkefnisins fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar Íslands voru María Harðardóttir útgáfustjóri og Snorri Sigurðsson sviðsstjóri náttúruverndar.

Fræðslumyndasögur um líffræðilega fjölbreytni