Holdafar rjúpna haustið 2023

Holdafar rjúpna nú í haust í meðallagi samanborið við fyrri ár. Hins vegar stefnir ferillinn fyrir holdastuðull fullorðinna rjúpna og unga niður á við og báðir aldurshópar eru í áberandi lélegri holdum en í fyrra.

Frá árinu 2006 hefur verið fylgst með holdafari rjúpna og eitt af því sem komið hefur í ljós er að mikill munur er á holdafari rjúpna eftir árum; ungfuglar eru að jafnaði léttari en fullorðnir fuglar en breytingar á milli ára eru þær sömu hjá báðum aldurshópum. Þessi mælikvarði á „hreysti“ rjúpunnar endurspeglar eitthvað sem fuglarnir hafa reynt í lífi sínu mánuðina á undan, það er yfir sumarið og haustið. Breytingar í holdafari á milli ára eru miklar og tengjast mögulega lýðfræði rjúpunnar og stofnbreytingum.

Samtals fékkst 401 fugl til skoðunar á veiðitíma 2023 sem veiðimenn lánuðu til rannsókna. Fuglarnir voru allir skotnir í Þingeyjarsýslum. Allir fuglarnir voru aldurs- og kyngreindir á ytri einkennum og vigtaðir, auk þess sem þrjú stærðarmál voru tekin: hauslengd, ristarlengd og vænglengd. Einnig var sarpur tæmdur ef fæða var í honum og innihald vegið.

Gerð var tölfræðigreining á öllu gagnasafninu 2006–2023 (4.054 fuglar) og sýna niðurstöður marktækan mun á holdastuðli á milli ára (ferillinn rís og hnígur), á milli kynja (karlfuglar voru í betri holdum en kvenfuglar) og á milli aldurshópa (ungar voru í lakari holdum en fullorðnir fuglar). Marktæk samvirkni var á milli ára og aldurs og ára og kyns, það er almennu reglurnar um að ungar væru í lakari holdum en fullorðnir fuglar og að kvenfuglar væru í lakari holdum en karlfuglar voru ekki algildar. Ekki var marktæk samvirkni á milli kyns og aldurs fuglanna.

Breytingar á holdastuðli eftir aldri fugla 2006-2023 héldust mjög vel í hendur á milli ára. Helsta frávikið var 2018 en þá skoruðu fullorðnir fuglar mjög lágt. Samanborið við fyrri ár er holdafar rjúpna nú í haust í meðallagi. Hins vegar stefnir ferillinn fyrir holdastuðull aldurshópanna niður á við og bæði fullorðnar rjúpur og ungar eru í áberandi lélegri holdum en í fyrra. Það er veikt neikvætt tölfræðilegt samband á milli holdastuðuls ungfugla og vetraraffalla þeirra og þá þannig að ef holdastuðullinn er lágur þá eru afföllin há og svo öfugt. Miðað við þetta má gera ráð fyrir að afföll hjá rjúpum verði há í vetur og að fækkun verði í varpstofni á Norðausturlandi miðað við síðasta ár.

Minnisblað: Mælingar á holdafari rjúpna haustið 2023