Útbreiðsla hæruburstar á Íslandi

Út er komin skýrslan „Útbreiðsla hæruburstar, Campylopus introflexus (Hedw.) Brid., á Íslandi – fyrsti áfangi“. Í henni er sagt frá rannsókn sem fram fór síðastliðið sumar í því skyni að safna ítarlegum upplýsingum um útbreiðslu hæruburstar á jarðhitasvæðum hér á landi og vistfræði tegundarinnar.

Hæruburst er framandi mosategund sem verðskuldar athygli hér á landi vegna þess hve ágeng hún er í öðrum löndum Evrópu. Takmarkaðar upplýsingar voru til um hæruburst frá Íslandi. Innan við tíu skráningar á hæruburst voru í plöntuútbreiðslugagnagrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands en þær eru úr afmörkuðum rannsóknum á mosum og gróðurfari háhitasvæða. Brýnt var að kanna útbreiðslu hæruburstar og áhrif hennar á innlendan gróður á jarðhitasvæðum en of litlar upplýsingar eru fyrir hendi til að hægt sé að draga ályktanir um ágengni hennar. 

Sumarið 2023 voru níu háhitasvæði á Suðvestur- og Norðausturlandi heimsótt og útbreiðsla hæruburstar könnuð og kortlögð á þeim. Tegundin fannst á sjö af níu svæðum: á Þeistareykjum, við Námafjall (Bjarnarflag  og Jarðbaðshólar), við Hengil (Grændalur, Hveradalir), í Brennisteinsfjöllum, í Krýsuvík, við Svartsengi-Eldvörp og á Reykjanesi. Rannsóknirnar sýndu að hæruburst er orðin mjög útbreidd á mörgum svæðanna. Á sumum háhitasvæðum, svo sem í Grændal og Hveradölum á Hengilssvæðinu, fundust þéttar breiður af hæruburst sem þöktu stór, samfelld svæði. Tegundin óx einkum í landi með lága jarðvatnsstöðu (í hveraleirsvist og móahveravist), við fremur háan jarðvegshita og helst þar sem rakastig er hátt vegna gufuútstreymis úr jörðu. Þessar rannsóknir eru fyrsta skrefið í átt að ítarlegri þekkingu á útbreiðslu hæruburstar og með þeim er lagður grunnur að rannsóknum á vistfræði tegundarinnar, vöktun á framvindu og áhrifum hennar á líffræðilegan fjölbreytileika jarðhitasvæða.  

Rannsóknarverkefnið hlaut styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar árið 2023.  

NÍ-23006 (pdf, 12,2 MB). Pawel Wasowicz og Olga Kolbrún Vilmundardóttir. Útbreiðsla hæruburstar, Campylopus introflexus (Hedw.) Brid., á Íslandi – fyrsti áfangi. Unnið fyrir Orkurannsóknasjóð Landsvirkjunar.