Breytt fyrirkomulag á birtingu frjómælingagagna sumarið 2024

Náttúrufræðistofnun Ísland hefur tekið upp breytt fyrirkomulag á birtingu gagna um frjómælingar samhliða breytingum á frjókornavöktun. 

Undanfarin ár hefur Náttúrufræðistofnun Íslands smám saman unnið að því að skipta úr handvirkri frjókornavöktun yfir í sjálfvirkt frjóvöktunarkerfi með aðstoð frá umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytinu. Sjálfvirkar frjómælingar hófust á Akureyri seinnipart sumars 2022 og nú í vor munu sjálfvirkar mælingar einnig hefjast í Garðabæ. Breytingin er tilkomin vegna vaxandi eftirspurn eftir rauntímagögnum en með nýju tækninni eru niðurstöður tiltækar á grafi á vef stofnunarinnar á innan við klukkutíma frá mælingu. Þessi hraða miðlun upplýsinga gefur mun betri og nákvæmari mynd af þeim frjókornum sem eru í lofti hverju sinni og vonast er til að það gagnist jafnt einstaklingum með frjóofnæmi sem og heilbrigðisstarfsmönnum betur. 

Rauntímagögn bæta einnig gæði frjókornaspár sem segir til um hvaða frjókorna má vænta í andrúmslofti næstu daga og í hve miklu magni.

Í tengslum við breytingarnar verður vikulegum tölvupóstsendingum til áskrifenda hætt. Þess í stað verður hægt að nálgast allar upplýsingar, meðal annars spár og fréttir, á vef stofnunarinnar. Vonast er til að þetta auki aðgengi og áreiðanleika upplýsinga fyrir alla sem hafa áhuga á frjómælingum. 

Nú fer frjótímabilið að hefjast en mælingar fara almennt fram frá apríl til september ár hvert þó að upphaf mælinga sé oft örlítið breytilegt vegna veðurskilyrða. Í apríl er líklegast að elri-, lyng, og víðifrjókorn séu í lofti. Í maí byrja asparfrjó gjarnan að mælast og um eða eftir miðjan mánuðin getur birki byrjað að blómgast. Frjótími birkis er um 2–4 vikur og hefur frjódreifingin oft verið í hámarki öðru hvoru megin við mánaðarmót maí og júní. Grasfrjó geta byrjað að mælast í júní en aðalfrjótími þeirra er í júlí og ágúst. Frjótími tegunda er þó alltaf háður veðráttu og getur sveiflast í samræmi við hana. Ef veður er hlýtt og þurrt með hægum vindi má almennt búast við háum frjótölum hjá blómstrandi tegundum sem dreifa frjóum sínum með vindi.

Vonast er til að innleiðing nýs fyrirkomulags gangi snuðrulaust fyrir sig og allar ábendingar og athugasemdir er vel þegnar.  

Frjómælingar