Kristjánít, ný tegund steinda nefnd eftir jarðfræðingi Náttúrufræðistofnunar Íslands

Í kjölfar eldsumbrota á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli árið 2010 fóru jarðfræðingar stofnunarinnar, Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson á Fimmvörðuháls til þess að leita að útfellingum á nýmynduðum gígum og hrauni. Þeir tóku meðal annars sýni af hvítum og grænleitum útfellingum sem fundust undir skorpu af gjósku úr Eyjafjallajökli utan í gígnum Magna. Hitastig í gjallinu mældist 670°C. Sýnið var sent til háskólans í Kaupmannahöfn ásamt fleiri sýnum og greint af Dr. Tonči Balić-Žunić, prófessor í steindafræði.

Í sýninu fannst áður óþekkt steind sem nú hefur verið samþykkt sem ný tegund af Alþjóða steindafræðisambandinu (International Mineralogical Association, Commission on New Minerals, Nomenclature and Classification). Steindin var nefnd kristjánít (e. kristjánite) í höfuðið á Kristjáni Jónassyni jarðfræðingi. Lýsing steindarinnar birtist nýlega í tímaritinu Mineralogical Magazine.
 

Kristjánít hefur efnasamsetninguna KNa2H(SO4)2. Það myndar einhalla, glæra kristalla sem eru allt að 100 µm að stærð (0,1 mm). Steindin var blönduð grænleitum massa af metathénardíti ásamt litlu magni af belomarinaíti, aphthitalíti, ivsíti, thenardíti og kröhnkíti.

Kristjánít er ekki fyrsta steindin sem nefnd er eftir íslendingi. Áður hafa verið samþykktar steindirnar jakobssonít og óskarssonít, sem voru nefndar eftir Sveini Jakobssyni, jarðfræðingi á Náttúrufræðistofnun og Níelsi Óskarssyni, jarðfræðingi á Norrænu eldfjallastöðinni. Þá hafa tvær steindir verið nefndar eftir íslenskum fundarstöðum þeirra, eldfellít og heklaít.

Berg og steindir