Surtseyjarleiðangur líffræðinga 2024
Í árlegum rannsókna- og vöktunarleiðangri líffræðinga í Surtsey kom í ljós að fjöldi æðplantna stendur í stað frá því í fyrra en miklar breytingar hafa orðið á útbreiðslu plöntutegundanna síðasta áratug. Þrjár nýjar smádýrategundir hafa numið land á eynni og fuglalíf virtist með svipuðu sniði og undanfarin ár.
Árlegur rannsókna- og vöktunarleiðangur Náttúrufræðistofnunar í Surtsey fór fram dagana 15.–18. júlí 2024. Auk vísindafólks frá Náttúrufræðistofnun voru í leiðangrinum þátttakendur frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Umhverfisstofnun og Eldheimum í Vestmannaeyjabæ. Leiðangurinn var farinn í samvinnu við Surtseyjarfélagið sem komið hefur að skipulagi rannsókna í eynni og viðheldur þar skála og aðstöðu til rannsókna. Landhelgisgæslan sá um flutning leiðangursfólks til eyjarinnar. Veður var með ágætum við komu í eyna, þurrkur og hægviðri en síðustu tvo dagana rigndi.
Plöntur
Af æðplöntum fundust 58 tegundir á lífi þetta sumarið en tvær tegundir voru horfnar frá síðasta ári, fjallavíðir (Salix arctica) og blásveifgras (Poa glauca). Ein tegund, mýrasef (Juncus alpinoarticulatus), fannst á nýjum stað. Tegundin hefur áður vaxið í apalhrauni á suðurhluta eyjarinnar en hvarf þaðan í fyrra. Nýr fundarstaður mýrasefs er við gíginn Surtung. Friggjargras (Platanthera hyperborea), sem fannst ekki á síðasta ári, fannst nú aftur á sama stað og áður en það var ekki í blóma í ár.
Ástand gróðurs var með ágætum en áhrif þurrkasumarsins 2023 voru greinileg, einkum á vaxtarsvæði varpafitjungs (Puccinellia capillaris) á hraunklöppum á eynni suðvestanverðri þar sem hann hefur að mestu drepist. Það ár fækkaði æðplöntutegundum um fimm í eyjunni og voru afföllin rakin til þurrkanna. Úttekt sumarsins 2024 sýnir að fjöldi tegunda stendur í stað frá árinu áður og gefur það fyrirheit um að þurrkatíðin hafi ekki haft langvarandi áhrif á æðplöntuflóru Surtseyjar.
Í ár var mesta vinnan fólgin í kortlagningu æðplöntuflórunnar sem unnin er í 1 ha reitum yfir alla eyjuna. Verkefnið hefur verið endurtekið á um 10 ára fresti og var síðast framkvæmt árin 2014 og 2015. Það er greinilegt að miklar breytingar hafa orðið á útbreiðslu æðplöntutegunda síðasta áratug. Útbreiðsla sumra tegunda hefur minnkað verulega, svo sem melablóms (Arabidopsis petraea), skammkrækils (Sagina procumbens) og vegarfa (Cerastium fontanum), en aðrar tegundir hafa bætt við sig eins og til dæmis holurt (Silene uniflora), hundasúra (Rumex acetosella), baldursbrá (Tripleurospermum maritimum), vallarsveifgras (Poa pratensis), blóðberg (Thymus praecox) og tungljurt (Botrychium lunaria). Gróður heldur áfram að þéttast og breiðast út í eynni, sérstaklega í fuglavarpi og á skjólsælli stöðum en einnig sáust merki um rofskemmdir vegna sandfoks þar sem vindálag er.
Smádýr
Smádýrarannsóknir fóru fram með hefðbundnu sniði, fallgildrur voru settar í mælireiti og tjaldgildra reist í máfavarpinu. Einnig var háfað og leitað eftir smádýrum víða. Veðurskilyrði til smádýrasöfnunar voru ágæt framan af en versnuðu eftir því sem á leið. Tjaldgildra var því tekin niður óvenju snemma í ár. Þrjár nýjar tegundir smádýra fundust í leiðangrinum, fíflalús (Uroleucon taraxaci), dverglodda (Trichoniscus pusillus) og mýrasnigill (Deroceras laeve). Mikið var af fíflalús á fæðuplöntunni, túnfífli. Niðurstöður greininga úr fallgildrum og tjaldgildrum bíða vetrar.
Fuglar
Fýll verpur víðs vegar um Surtsey en fýlsungar sátu í hreiðrum á bjargbrúnum, í máfavarpinu og í hrauntaumum á móbergsbunkum. Mikið líf var í máfavarpinu en þó virtist heldur minna um svartbak og sílamáf en áður þó engar talningar voru gerðar að þessu sinni. Þá var minna um spörfugla en verið hefur en nokkur pör af þúfutittlingi, sólskríkju og maríuerlu voru á eynni með unga. Engin ummerki voru um grágæs en þær hafa orpið á eynni um nokkurn tíma. Hrafnslaupur var í Surtungi og sáust tveir hrafnar á flugi en einn dauður ungi fannst við gíginn. Teista var í varpi við Gústafsberg og einn lundi sat uppi í bergi á suðurhluta eyjunnar.
Vistkerfismælingar og jarðvegur
Landbúnaðarháskóli Íslands hélt áfram rannsóknum á vistkerfisvirkni. Gerðar voru mælingar á kolefnisjöfnuði, vistkerfisöndun og heildarljóstillífun í um helmingi fastra vöktunarreita og mældir endurkastsstuðlar en rigning hamlaði mælingum. Gerð var lýsing á jarðvegssniðum við vöktunarreiti þar sem lögð var áhersla á að lýsa sniðum við gróna reiti í fuglabyggð sem og reiti undir litlum áhrifum fugla. Athygli vakti að í reitum í fuglavarpi var að sjá ummerki um leirmyndun.
Rekarusl, vefmyndavél og viðhald á Pálsbæ
Umhverfisstofnun skráði rusl í fjöru á norðurtanga en strönd Surtseyjar er vöktuð samkvæmt aðferðafræði OSPAR-samningsins, um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins. Ný vefmyndavél var sett upp á veðurstöðinni en engar myndir höfðu borist frá eynni frá í janúar vegna bilunar á vélinni sem fyrir var. Ýmis smáverk voru unnin á Pálsbæ til viðhalds. Við komu í eyna stóðu dyrnar á skálanum opnar en læsingar á hurðarhlera höfðu losnað og hurðin fokið upp í vor. Skemmdir voru þó litlar og var skipt um læsingar, hjarir og dyrakarmur lagfærður. Að auki var sett upp ný tunna sem safnar rennuvatni af þaki Pálsbæjar en ekkert ferskvatn er í Surtsey.
Leiðangur líffræðinga skipuðu:
Olga Kolbrún Vilmundardóttir, Náttúrufræðistofnun, leiðangursstjóri
Pawel Wasowicz, Náttúrufræðistofnun
Matthías S. Alfreðsson, Náttúrufræðistofnun
Járngerður Grétarsdóttir, Náttúrufræðistofnun
Bjarni Diðrik Sigurðsson, Landbúnaðarháskóli Íslands
Susanne Claudia Möckel, Landbúnaðarháskóli Íslands
Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, Umhverfisstofnun
Kristín Jóhannsdóttir, Eldheimum í Vestmannaeyjabæ
Michel Izard, TF1 sjónvarpsstöðinni í Frakklandi