Strimlaflaga og klettaglæða vaxa á grjóti. – Ljósm. Starri Heiðmarsson
Á Hrafnaþingi miðvikudaginn 26. febrúar 2025 kl. 15:15-16:00, mun Starri Heiðmarsson fléttufræðingur hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra flytja erindið „Bleðlapíra, fjallagrös og breyskjuríla, íslenskar fléttur og viðhengi, talin og skráð í fléttutali".
Í erindinu verður fjallað um fléttutal. Fléttutal er listi yfir fléttur og fléttuháða sveppi sem vitað er til að finna megi á Íslandi. Útgáfa listans er mikilvægur áfangi í flétturannsóknum á Íslandi og byggir á ævistarfi Harðar Kristinssonar sem hóf að taka listann saman snemma á áttunda áratug síðustu aldar.
Erindið verður flutt í Krummasölum, fundarherbergi Náttúrufræðistofnunar á 3. hæð í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti, Garðabæ. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams.
Hægt er að fylgjast með dagskrá Hrafnaþings á vef Náttúrufræðistofnunar og áhugasömum er bent á að skrá sig á póstlista á natt@natt.is.