Ný rannsókn sýnir áhrif stafafuru á íslensk vistkerfi

Nýleg vísindagrein sem birtist í tímaritinu “NeoBiota” fjallar um útbreiðslu og áhrif stafafuru (Pinus contorta) á vistkerfi Íslands. Greinin lýsir rannsóknum sem gerðar voru á útbreiðslu stafafuru í Steinadal í Suðursveit á tímabilinu 2010 til 2021.
Stafafura, sem var fyrst flutt til Íslands upp úr miðri síðustu öld, hefur mikla útbreiðslugetu og getur auðveldlega náð yfirráðum í fjölbreyttum búsvæðum, þar á meðal birkiskógum og í mólendi. Hún er í mörgum löndum skilgreind sem ágeng tegund. Skógræktargeirinn hér á landi álítur stafafuru heppilegan kost til kolefnisbindingar til að draga úr hnattrænni hlýnun og tegundin er nú mest ræktaða trjátegundin á Íslandi. Stafafura var fyrst gróðursett í Steinadal í Suðursveit árið 1959.
Rannsóknin sýnir að útbreiðsla stafafuru í Steinadal jókst nærri tífalt á einum áratug, á tímabilinu á milli 2010 og 2021. Sömu aðferðafræði var beitt bæði árin, þar sem landfræðileg útbreiðsla var mæld með GPS-tækni og fjölbreytni og tegundafjöldi æðplanta í mismunandi gróðurlendum var metin. Niðurstöðurnar sýna að stafafura breiðist hratt út með veldisvexti og á tímabilinu fjölgaði trjám úr 429 í 3.315 á mældum sniðum. Áhrif á líffræðilega fjölbreytni eru veruleg, því tegundafjöldi og fjölbreytni æðplanta voru marktækt minni á þeim svæðum þar sem stafafura hafði náð fótfestu.
Höfundar greinarinnar, þau Pawel Wasowicz grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, Guðrún Óskarsdóttir gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands og Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor emerita við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, draga þá ályktun að stafafura búi yfir eiginleikum ágengrar tegundar á Íslandi sem getur haft alvarleg áhrif á vistkerfi landsins, þar á meðal birkiskóga, mólendi og varpstaði vaðfugla. Þau hvetja til aukinnar vitundar og aðgæslu, ásamt markvissum aðgerðum til að stjórna útbreiðslu stafafuru, sérstaklega í ljósi áforma um aukna skógrækt.