Sölvi Rúnar Vignisson ráðinn til starfa við Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn

Náttúrufræðistofnun hefur ráðið Sölva Rúnar Vignisson vistfræðing til starfa. Hann mun leiða faglegt starf Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ) sem nú heyrir undir svið dýrafræða og ferskvatns samkvæmt nýju skipuriti stofnunarinnar.

Rannsóknir við Mývatn heyra nú undir Náttúrufræðistofnun eftir sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Landmælinga Íslands þann 1. júlí 2024. Sérfræðingar sem höfðu verið ráðnir til starfa að Mývatni drógu ráðningu sína til baka af persónulegum ástæðum.

Sölvi Rúnar hefur störf 1. ágúst 2025 og mun starfa í náinni samvinnu við Sunnu Björk Ragnarsdóttur, sviðstjóra dýrafræða og ferskvatns. Hann tekur hann við af Árna Einarssyni, sem lætur að störfum eftir rúmlega 50 ára samfellda starfsævi við RAMÝ. Vert er þó að nefna að Árni mun sinna hlutastarfi við stöðina í sumar ásamt öðru starfsfólki.
 

Sölvi Rúnar er menntaður líffræðingur með B.S.- og M.S.-gráðu frá Háskóla Íslands og stefnir að því að ljúka doktorsnámi frá sama skóla árið 2026. Í doktorsrannsókn sinni hefur hann rannsakað farkerfi íslenskra tjalda undir handleiðslu Tómasar Gunnarssonar hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.

Frá árinu 2013 hefur Sölvi Rúnar starfað hjá Þekkingarsetri Suðurnesja, þar sem hann hefur sinnt fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum tengdum fuglafræði, hafrannsóknum og dýravistfræði. Flest verkefni hans hafa snúið að fuglum, með sérstakri áherslu á far, fuglaflensu og áhrif umróta í og við búsvæði þeirra.

Sölvi er í sambúð með Ernu Jónsdóttur, líffræðingi og fagsviðsstjóra hjá Matvælastofnun. Saman eiga þau tvo drengi, Hrafn og Berg Þór, og fjölskyldan hyggst setjast að á Akureyri haustið 2025. Sölvi Rúnar er fæddur og uppalinn á Akureyri en ættaður úr Jökuldalnum og Vopnafirði.

Náttúrufræðistofnun óskar Sölva Rúnari til hamingju með nýja starfið og hlakkar til samstarfs við hann í framtíðinni.