Rjúpur á flugi á Norðausturlandi. – Ljósm. Ólafur K. Nielsen
Aldursgreiningar í rjúpnaveiði haustið 2024 gengu vel, sýni fengust úr öllum landshlutum og alls var 3071 fugl var aldursgreindur. Hlutfall unga á fullorðinn fugl var 2,14 á landsvísu sem er lítil aukning frá árinu á undan (1,99).
Aldursgreining rjúpna byggir á litgreiningu á flugfjöðrum, þar sem fuglar eru flokkaðir í tvo aldurshópa: fugla á fyrsta ári og eldri fugla. Markmiðið er að fá að lágmarki 200 fugla frá hverjum landshluta til greiningar. Því markmiði var náð á Austurlandi (977 fuglar), Norðausturlandi (972 fuglar) og Vestfjörðum (724 fuglar). Hins vegar náðist það ekki á Vesturlandi (104 fuglar), Suðurlandi (123 fuglar) og Norðvesturlandi (173 fuglar). Söfnun heldur áfram og búast má við að nokkrir tugir fugla bætist enn við.
Hlutfall unga á fullorðinn fugl var lægst á Suðurlandi (1,57) og hæst á Norðausturlandi (2,74). Þrátt fyrir aukninguna frá 2023 er hlutfallið í lægri kantinum miðað við árin 2005–2023. Þetta bendir til að viðkoma rjúpunnar hafi almennt verið léleg sumarið 2024, í takt við niðurstöður mælinga í júlí.