Fyrstu frjókorn elris farin á flug

Fyrstu elritré landsins eru nú farin að blómstra, sem markar upphaf frjótímabils elris. Í sumum landshlutum eru blóm elris enn lokuð en á sólríkari stöðum eru þau þegar farin að opnast og því má búast við frjókornum í andrúmslofti á næstu dögum.

Losun elrifrjókorna ræðst að mestu leyti af hitastigi, því hlýrra sem veðrið er, því meira verður magn frjókorna í lofti. Úrkoma dregur aftur á móti úr magni þeirra þar sem væta skolar frjókornum úr andrúmsloftinu.

Elritré eru tiltölulega sjaldgæf á Íslandi og allar tegundir þeirra eru innfluttar. Vegna þess og skilyrða hér á landi birtast elrifrjókorn jafnan snemma á frjókornatímabilinu, vara í stuttan tíma og eru yfirleitt í litlu magni.

Þrátt fyrir það geta elrifrjókorn valdið miðlungs til sterkum ofnæmisviðbrögðum, þar sem þau eru náskyld birkifrjókornum. Aðalofnæmisvaldur elris, Aln g1, deilir um 90% af próteinbyggingu sinni með Bet v1, helsta ofnæmisvaldinum í birkifrjókornum. Það veldur algengum krossviðbrögðum og geta einstaklingar með birkiofnæmi fundið fyrir einkennum þegar elrifrjókorn eru í loftinu.

Á næstu vikum má búast við að víðir (Salix) fari að blómstra í seinni hluta apríl en frjókorn frá ösp (Populus) og birki (Betula) munu líklega koma fram í maí. Nákvæm tímasetning mun þó ráðast af veðurfari.