Áhrif ferðamanna á refi á Hornströndum rannsökuð

Nýverið kom út vísindagrein í tímaritinu Wildlife Biology sem fjallar um rannsókn á Hornströndum þar sem könnuð voru áhrif ferðamanna á heimsóknir refa á greni á meðan þeir sinntu afkvæmum sínum. 

Rannsóknin fór fram á árunum 2010–2019, á sama tíma og ferðamönnum fjölgaði verulega á svæðinu. Fylgst var með ferðamönnum og refum við greni þegar yrðlingarnir voru 4–5 vikna gamlir og háðir bæði móðurmjólk og fæðu sem báðir foreldrar báru heim. 

Niðurstöður sýna að eftir því sem nærvera ferðamanna og viðverutími þeirra jókst, komu refir sjaldnar og dvöldu skemur við greni. Ef ferðamenn voru á staðnum forðuðust refirnir jafnvel að koma að greni. Mæðurnar komu frekar en feðurnir, líklega vegna mjólkurgjafar, en í sumum tilfellum sást faðirinn alls ekki.
 

Þó ekki hafi verið hægt að sýna fram á marktæk áhrif fjölda ferðamanna á fæðugjafir á þeim stutta tíma sem mælingar stóðu yfir ár hvert, bendir rannsóknin eindregið til þess að truflun eigi sér stað þegar fólk dvelur nærri grenjum á viðkvæmum tíma. Heimsóknir foreldra á greni voru marktækt færri.

Þegar niðurstöðurnar eru bornar saman við eldri rannsókn frá 1998 kemur fram að foreldrar komu þá oftar á greni og kynjahlutverk voru ólík, því það var faðirinn sem kom oftar með fæðu. Á þeim tíma voru engir ferðamenn á svæðinu í júní og dvalartími fólks við greni var óverulegur.

Viðmiðunarreglur sem settar hafa verið fram í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hornstrandir kveða á um að ekki skuli farið nær grenjum en 40 metrar og ekki dvalið lengur en 20 mínútur. Þessar reglur, sem einnig koma fram á upplýsingaskiltum á lykilsvæðum, hafa mögulega hjálpað til við að draga úr álagi á dýrin. Einnig er ekki mælt með ferðum um svæðið að næturlagi til að veita dýrunum næði til fæðuöflunar og umönnunar. 

Refagreni eru vernduð með lögum og óheimilt er að valda þar óþarfa truflun á grenjatíma, sem stendur frá byrjun maí til loka júlí. Á þetta við um öll greni í ábúð, hvar sem er á landinu.

Aukin notkun snjalltækja og samfélagsmiðla hefur ýtt undir áhuga fólks á að sjá og ljósmynda villta refi í sínu náttúrulega umhverfi. Líklegt er að fjöldi ferðamanna muni halda áfram að aukast á þessu svæði og því er mikilvægt að halda rannsóknum áfram, bæði á áhrifum aukins ferðamannastraums á refi og einnig á upplifun, þekkingu og hegðun ferðamannanna sjálfra. Slíkar rannsóknir geta varpað ljósi á hvort leiðbeiningar til ferðamanna séu virtar og hvort þær skili tilætluðum árangri, bæði til að auka sjálfbærni í ferðaþjónustunni og til að tryggja vernd dýranna á svæðinu.

Höfundar greinarinnar eru Ester Rut Unnsteinsdóttir, Borgný Katrínardóttir og Bruce J. McAdam.

Greinin er öllum opin á netinu: https://nsojournals.onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1002/wlb3.01398

Stjórnunar- og verndaráætlun Hornstranda
https://ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Nattura/Fridlyst-Svaedi/Vestfirdir/Hornstrandir/Hornstrandir_utgefnar.pdf