Talið er að kúmen hafi fyrst verið ræktað á Íslandi í Fljótshlíð, þar sem Vísi-Gísli bjó. – Ljósm. Magnus Göransson
Nýlega birtist grein um erfðabreytileika kúmens (Carum carvi L.) á Norðurlöndum. Kúmen á sér langa sögu á Íslandi og fáar jurtir hafa verið jafn mikið notaðar, bæði í matargerð og til lækninga. Hvað væri íslenska brennivínið án kúmens?
Í rannsókninni voru þrír íslenskir stofnar kúmens rannsakaðir, þar á meðal kúmen frá Fljótshlíð. Sagan segir að Gísli Magnússon (1621–1696), betur þekktur sem Vísi-Gísli, hafi komið með kúmen til Íslands eftir nám í Evrópu, í Danmörku og Hollandi. Árið 1653 flutti hann að Hlíðarenda þar sem hann hóf meðal annars kartöflurækt, fyrstur manna á Íslandi. Talið er að hann hafi flutt með sér kúmenfræ að utan og verið fyrstur til að rækta þá kryddjurt hér á landi.
Rannsóknin sýnir að kúmenið sem vex í Fljótshlíð er erfðafræðilega skyldast kúmeni frá Danmörku en í minna mæli kúmeni frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Enn fremur kom í ljós að erfðabreytileikinn innan íslensku stofnanna var mestur í Fljótshlíð, en minni í Skaftafelli og Grænumýrartungu. Þetta styður við sögulega kenningu um að kúmenið hafi dreifst um landið frá Fljótshlíð.
Erfðabreytileiki er ekki einungis á milli tegunda, heldur á milli og innan stofna sömu tegundar. Að þekkja erfðabreytileika og skyldleika milli stofna gerir okkur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um hvernig best sé að vernda tegundir.