Vísindagrein um erfðabreytileika kúmens

Nýlega birtist grein um erfðabreytileika kúmens (Carum carvi L.) á Norðurlöndum. Kúmen á sér langa sögu á Íslandi og fáar jurtir hafa verið jafn mikið notaðar, bæði í matargerð og til lækninga. Hvað væri íslenska brennivínið án kúmens?

Í rannsókninni voru þrír íslenskir stofnar kúmens rannsakaðir, þar á meðal kúmen frá Fljótshlíð. Sagan segir að Gísli Magnússon (1621–1696), betur þekktur sem Vísi-Gísli, hafi komið með kúmen til Íslands eftir nám í Evrópu, í Danmörku og Hollandi. Árið 1653 flutti hann að Hlíðarenda þar sem hann hóf meðal annars kartöflurækt, fyrstur manna á Íslandi. Talið er að hann hafi flutt með sér kúmenfræ að utan og verið fyrstur til að rækta þá kryddjurt hér á landi.

Rannsóknin sýnir að kúmenið sem vex í Fljótshlíð er erfðafræðilega skyldast kúmeni frá Danmörku en í minna mæli kúmeni frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Enn fremur kom í ljós að erfðabreytileikinn innan íslensku stofnanna var mestur í Fljótshlíð, en minni í Skaftafelli og Grænumýrartungu. Þetta styður við sögulega kenningu um að kúmenið hafi dreifst um landið frá Fljótshlíð.

Erfðabreytileiki er ekki einungis á milli tegunda, heldur á milli og innan stofna sömu tegundar. Að þekkja erfðabreytileika og skyldleika milli stofna gerir okkur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um hvernig best sé að vernda tegundir. 

An east–west distribution of genetic diversity in Nordic populations of caraway (Carum carvi L.) and its consequences for conservation prioritisation.