Brimasamar hnullungafjörur

F1.2 Brimasamar hnullungafjörur

EUNIS-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. A1.13 Ephemeral algae on boulder shores.

Lýsing

Fjaran samanstendur aðallega af brimnúnum hnullungum og stundum steinvölum sem brimrótið hreyfir. Lífsskilyrði eru erfið en stundum geta þörungar vaxið ofarlega á stærstu steinunum ef brim er ekki þeim mun meira. Þang þekur minna en þriðjung fjörunnar. Oft eru fjörurnar það smágrýttar að hvorki eru lífsskilyrði fyrir stærri þörunga né dýr (hrúðurkarla). Langt undir yfirborðinu á milli hnullunga myndast þó oft sæmilegt skjól fyrir dýr eins og fjöruflær. Á sumrin þegar vindur er lítill og ölduhreyfing óveruleg geta smávaxnir, skammærir þörungar sprottið upp og litað yfirborð steinanna grænt. Efst eða ofan við þessar fjörur myndast stundum þarahrannir með stórþara og öðrum þörungum sem brimið hefur slitið upp. Fái þær að vera í friði fyrir brimi í einhvern tíma taka þær að rotna og sækja þá í þær ýmis dýr (Agnar Ingólfsson 1990).

Fjörubeður

Hnullungar og stundum steinvölur.

Fuglar

Afar lítið fuglalíf í fjörunni sjálfri en mikið af fugli sækir í smádýr sem þrífast í þarahrönnum sem myndast oft við efsta hluta fjörunnar. Helstu tegundir eru ýmsir vaðfuglar, spörfuglar og æðarfuglar.

Líkar vistgerðir

Skúfþangsfjörur.

Útbreiðsla

Allt í kringum landið þar sem hnullungafjörur eru fyrir opnu hafi. Algengastar á Norður- og Austurlandi.

Verndargildi

Lágt.

Áberandi gróður – Conspicuous vegetation Áberandi dýr – Conspicuous animals
Grænþör.ættkvísl Ulva spp. Fjöruflær Gammarus spp.
Grænþör.ættkvísl Ulothrix spp. Þanglýs Idotea spp.
Grænþör.ættkvísl Urospora spp. Fjörulýs Jaera spp.
Skúfþang Fucus distichus    

 

Opna í kortasjá – Open in map viewer

 

Heimildir

Agnar Ingólfsson 1990. Íslenskar fjörur. Bjallan. Reykjavík.