Eyðimelavist
L1.1 Eyðimelavist
Eunis-flokkun: H5.3 Sparsely- or un-vegetated habitats on mineral substrates not resulting from recent ice activity


Lýsing
Víðáttumiklir, fremur þurrir, allgrýttir hálendismelar á flötu eða hallandi landi. Á yfirborði er víða sandur og vikur en sums staðar eru frosttíglar útbreiddir. Áfok og sandfok er mikið. Heildargróðurþekja er mjög lítil. Mosar í glufum og í skjóli við steina en hrúðurfléttur og skófir á grjóti.
Plöntur
Tegundafjöldi æðplantna í meðallagi, mjög mikið af fléttum en mosar frekar fáir. Af æðplöntum er mest um lambagras (Silene acaulis) og túnvingul (Festuca rubra subsp. richardsonii) en algengastir mosa eru holtasóti (Andreaea rupestris), melagambri (Racomitrium ericoides), snoðgambri (R. fasciculare) og heiðahéla (Anthelia juratzkana) og algengustu fléttur eru dvergkarta (Tremolecia atrata), grásnuðra (Lecidea lapicida), landfræðiflikra (Rhizocarpon geographicum), vaxtarga (Lecanora polytropa) og vikurbreyskja (Stereocaulon arcticum).
Jarðvegur
Er fremur grunnur, melajörð, sandjörð og klapparjörð finnast. Jarðvegur er næringarsnauður og mjög kolefnisrýr en sýrustig frekar hátt.
Fuglar
Mjög fábreytt fuglalíf og strjált varp, helst stöku snjótittlingar (Plectrophenax nivalis), steindeplar (Oenanthe oenanthe) og sandlóur (Charadrius hiaticula).
Líkar vistgerðir
Grasmelavist, víðimelavist og eyðihraunavist.
Útbreiðsla
Eyðimelavist er mjög útbreidd á miðhálendinu og á hæstu fjöllum út til stranda.
Verndargildi
Lágt.

