Strandmelhólavist
L7.3 Strandmelhólavist
Eunis-flokkun: B1.311 Atlantic embryonic dunes.


Lýsing
Lítið til allvel grónir sandhólar á sjávarkömbum og söndum, vaxnir melgresi (Leymus arenarius) og túnvingli (Festuca rubra ssp. richardsonii). Nær gróðurlaus sandur á milli hóla. Stöðug hreyfing á sandi sem safnast hlémegin við hólana sem byggjast upp og rofna á víxl. Land undir miklu álagi af vindi, sandfoki og sjávargangi. Æðplöntur algjörlega ríkjandi, mosar og fléttur finnast naumast.
Plöntur
Vistgerðin er mjög fátæk af tegundum. Melgresi er ríkjandi, en túnvingull er fylgitegund víðast hvar og með allmikla þekju. Af mosum finnst helst hlaðmosi (Ceratodon purpureus).
Jarðvegur
Þykk sandjörð, með mjög lítið kolefnisinnihald og hátt sýrustig.
Fuglar
Nokkurt fuglalíf, kría (Sterna paradisaea), svartbakur (Larus marinus), æðarfugl (Somateria mollissima), grágæs (Anser anser), spói (Numenius phaeopus) og þúfutittlingur (Anthus pratensis).
Líkar vistgerðir
Landmelhólavist og sandstrandarvist.
Útbreiðsla
Algeng á sendnum sjávarströndum, mest með suðurströnd landsins.
Verndargildi
Lágt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

