Aldeyjarfoss, Ingvararfoss og Hrafnabjargafoss

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja. Það er innan tillögusvæðisins Skjálfandafljót ofan Aldeyjarfoss, sem tilnefnt er vegna fugla.

Mörk

Mörk miðast við Skjálfandafljót, suður frá Hrafnabjörgum norður að Kjallarabrúm, ásamt 200 m jaðarsvæði frá bökkum.

Lýsing

Skjálfandafljót er vatnsmikið jökulfljót sem fellur frá norðanverðum Vatnajökli og Tungnafellsjökli. Einnig falla í fljótið fjölmargar lindár sem spretta fram í Ódáðahrauni. Fossaröðin er ofan efstu bæja innarlega í Bárðardal þar sem Bárðardalshraun rennur fram af hálendisbrúninni ofan í dalinn. Hraunið myndaðist í miklu flæðigosi fyrir um 9.000 árum en það er hluti af Ódáðahrauni sem er í raun samansafn margra hraunbreiða sem ýmist falla til norðurs (Útbruni) eða suðurs (Frambruni). Skjálfandafljót hefur fundið sér leið yfir hraunið og rofið það niður þannig að áin fellur nú í röð fossa.

Aldeyjarfoss er rúmlega 20 m hár og fellur fram af Bárðardalshrauni um þröngt haft ofan í skeifulaga hyl. Hraunið er fagurstuðlað neðan við fossinn og má sjá bæði lóðrétt stuðlaberg og stuðlarósir. Ingvararfoss er rétt ofan við Aldeyjarfoss og er nokkru lægri. Hrafnabjargafoss er um 5 km ofan við Aldeyjarfoss. Hann er um 5 m hár en fremur breiður þar sem áin fellur fram af hrauninu í aðskildum, misstórum lænum og rennur stór hluti vatnsins undir hraunbrú í ánni vestanverðri.

Auðnir, ávalir, jökulsorfnir hálsar og eldbrunnin hraun eru einkennandi í landslagi svo innarlega í Bárðardal en fossarnir eru í 300–400 m hæð y.s. Sprengisandsleið liggur um hálsa vestan fljótsins og eru fossarnir vinsæll viðkomustaður ferðamanna..

Forsendur fyrir vali

Vatnsmiklir, ægifagrir fossar í blárri jökulá með stuðluðu nútímahrauni í gljúfrum. Vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Ógnir

Fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir en Hrafnabjargavirkjun er í biðflokki rammaáætlunar. Ágangur ferðamanna er við fossana. Útbreiðsla framandi tegunda.

Aðgerðir til verndar

Tryggja að vatnsflæði til fossanna verði ekki skert. Innviðauppbygging og stýring umferðar gangandi ferðamanna og koma í veg fyrir utanvegaakstur. Stemma gegn útbreiðslu framandi tegunda.

Núverandi vernd

Núverandi verndarsvæði Staða
Skjálfandafljót ofan Aldeyjarfoss Aðrar náttúruminjar
Ingvararfoss, Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss Aðrar náttúruminjar
Náttúruverndarlög Aðrar náttúruminjar

Fleiri myndir

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2020-12-03

Stærð

4,8 km2