Orravatnsrústir

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja, nánar tiltekið freðmýra. Eitt tilkomumesta og þróaðasta rústasvæði landsins. Loftslagsbreytingar og umhverfissaga á nútíma. Svæðið nær yfir tillögusvæðið Orravatnsrústir, sem tilnefnt er vegna vistgerða á landi og ferskvatnsvistgerða.

Mörk

Rústirnar eru  freðmýrasvæði á Hofsafrétt, í rúmlega 700 metra hæð yfir sjávarmáli á hálendinu, 10-20 km norðan Hofsjökuls.

Mörk liggja frá Reyðarfelli í austanvert Reyðarvatn. Þaðan til suðurs rétt austan við Reyðarvatn og síðan með vegi allt að Vestripollum. Þaðan í austur, fyrir Gimbrafell og norður í Bleikáluháls og áfram með vegi, þá norðvestur fyrir Reiðhól og í austur með Runukvísl í suðvestur og vesturhlíðar Reyðarfells.

Lýsing

Orravatnsrústir er eitt tilkomumesta og þróaðasta rústasvæði landsins. Rústirnar eru  freðmýrasvæði á Hofsafrétt, í rúmlega 700 metra hæð yfir sjávarmáli á hálendinu 10-20 km norðan Hofsjökuls. Mýra- og rústasvæðið er gróðurvin í  um það bil 2-2,5 km2 lægð sem sker sig úr annars hrjóstrugu landslagi. Rústir eru lágar bungur eða hæðir í landslagi freðmýra sem myndast vegna hækkunar jarðvegsyfirborðs þegar íslinsa myndast á afmörkuðu svæði í fínkornóttum jarðvegi mýrarinnar.

Nánari lýsing

Landslag við Orravatnsrústir einkennist af ávölum jökulruðningshólum og hæðum, auk stöku jökulgarðbútum frá lokum síðasta jökulskeiðs. Rannsóknir á svæðinu sýna ósamfelldan sífrera sem á köflum er meira en 5 metra þykkur. Virkt lag rústanna, það er efsti hluti jarðvegsins sem þiðnar á hverju sumri, er 40-80 sentimetra þykkt. Mikill fjöldi rústa finnst á svæðinu, þær eru upp í tugir metra í þvermál, um 40-200 sentimetra háar og á ýmsum myndunarstigum. Elstu aldursgreindu rústirnar eru um 4.200 ára gamlar, en öskulagarannsóknir sýna að flestar stóru rústanna hafa myndast á síðustu 1.000-4.000 árum. Heimildir eins og landlýsingar segja frá mun fleiri rústum en í dag og meiri útbreiðslu norðan Hofsjökuls í upphafi 20 aldar, þegar kuldaskeiðið sem kennt hefur verið við Litlu Ísöld var að ljúka. Engu að síður hafa nýjar rústir myndast reglulega síðustu áratugi, ekki síst á köldu skeiði sjöunda og áttunda áratug 20. aldar. Nýmyndaðar rústir eru viðkvæmar og margar þeirra falla fljótlega aftur saman. Rústir eru sjaldgæfar á Íslandi, þær myndast helst á norðanverðu hálendinu þar sem upphleðsla jarðvegs er hröð vegna áfoks og öskufalls. Þessar myndunaraðstæður íslenskra rústa gera þær sérstakar í alþjóðlegu tilliti, því erlendis einkennast rústir af mó og hægri jarðvegsmyndun.

Myndunarsaga og breytingar á Orravatnsrústum tengjast beint loftslags- og jöklunarsögu landsins á Nútíma. Rústir á svæðinu tóku að myndast á svipuðum tíma og jöklar landsins ýmist mynduðust á ný eða tóku að vaxa við kólnandi loftslag eftir tiltölulega hlýtt tímabil á fyrri hluta Nútíma.

Af þessu má sjá að Orravatnsrústir og almennt rústasvæði á Íslandi eru afar virk fyrirbæri og í stöðugri þróun. Svæðin og rústirnar sjálfar taka breytingum vegna loftlagsbreytinga, breytinga á vatnafari og við óvenju mikla upphleðslu eða rof jarðvegs.

Forsendur fyrir vali

Orravatnsrústir eru eitt tilkomumesta og þróaðasta rústasvæði landsins. Orravatnsrústir og almennt rústasvæði á Íslandi eru afar virk fyrirbæri og í stöðugri þróun. Svæðin og rústirnar sjálfar taka breytingum vegna loftlagsbreytinga, breytinga á vatnafari og við óvenju mikla upphleðslu eða rof jarðvegs.

Rústamýrar hafa verulegt vísindagildi, til dæmis vegna loftslagsbreytinga og loftslagssögu landsins á Nútíma, auk þess sem nákvæmt öskulagatímatal á Íslandi skapar tækifæri á ítarlegri rannsóknum en víðast annarstaðar á myndun og þróun rústa. Rústum fer fækkandi hér á landi og rústasvæðin dragast saman, aðallega vegna hlýrra loftslags. Þess vegna er enn mikilvægara en áður að vernda þessar jarðminjar.

Ógnir

Helstu ógnir eru virkjunaráform, vegagerð, akstur utan vega og beit. Svæðið raskaðist á tímabili vegna hrossabeitar sem sveitafélagið hefur nú stöðvað. Auk þess ógnar hlýnandi veðurfar tilveru rústanna.

Aðgerðir til verndar

Vakta þarf freðmýrarsvæðin á Hofsafrétt og þróun þeirra. Tryggja þarf að framkvæmdir hafi engin áhrif á vatnafar svæðisins og koma þarf í veg fyrir utanvegaakstur og beit.

Núverandi vernd

Núverandi verndarsvæði Staða
Orravatnsrústir á Hofsafrétt Aðrar náttúruminjar

Heimildir

Bergmann, B., 1973. Um rústir a Húnvetnskum heiðum. Náttúrufraedingurinn 42, 190–198.

Cristof Kneisel, Þorsteinn Sæmundsson and Achim A. Beylich. 2007. Reconnaissance surveys of contemporary permafrost environments in central Iceland using geoelectrical methods: implicants for permafrost degradation and sediment fluxes. Geografiska Annaler 89A (1), 41-50.

Þorsteinn Sæmundsson, Ólafur Arnalds, Cristof Kneisel, Helgi Páll Jónsson og Armelle Decaulne. 2012. The Orravatnsrústir palsa site in Central Iceland – Palsas in an aeolian sedimentation environment. Geomorphology 167-168, 13-20.

Fleiri myndir

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2018-04-05

Size

72,9 km2

Flokkun

Virk ferli - Rof og setmyndun

Jarðsaga

Skeið: Forsögulegur tími
Tími: Nútími
Aldur: 4.200 ára