Svæðið er tilnefnt vegna sela. Það nær að hluta yfir tillögusvæðin Drangajökul og Fossa í Rjúkandi, Hvalá og Eyvindarfjarðará, sem tilnefnd eru vegna jarðminja.

Mörk
Um er að ræða selalátur á strandlengju, eyjum og skerjum frá botni Furufjarðar í norðri að Krossnesfjalli í suðri, auk jaðarsvæðis allt að 1 km til sjávar.
Lýsing
Svæðið nær yfir strandlengjuna frá Ingólfsfirði í suðri og norður að Furufjarðarbotni, ásamt eyjum og skerjum. Áður fyrr var búið þar víða og voru selveiðar meðal hlunninda á svæðinu um aldir, ásamt sjósókn, dúnrækt, eggja- og fuglatöku. Nú er þar einungis frístundabyggð og hlunnindi nýtt í smáum stíl en ferðamennska er í örum vexti. Svæðið er ríkt af fuglalífi og selur kæpir víða meðfram ströndinni og á eyjum. Helstu látur eru í Skjaldabjarnarvík, að Dröngum, í Drangavík, Ófeigsfirði, Eyvindarfirði og Munaðarnesi.
Forsendur fyrir vali
Á svæðinu hafa verið látur með samtals yfir 800 landselum eða allt að 26,5% af landselum norðvesturlands og 13,2% af íslenska landselsstofninum. Stærsti hluti útsela norðvesturlands (allt að 100%) hefur kæpt á svæðinu og allt að 38% af heildarstofninum. Landsel á svæðinu hefur fækkað um 72,3% frá því talningar hófust árið 1980. Að sama skapi hefur útsel fækkað um 57% síðan talningar á þeim hófust árið 1982.
Selir
Nafn | Lægsti fjöldi (ár) | Hæsti fjöldi (ár) | Hæsta hlutfall af Norðvesturstofni (ár) | Hæsta hlutfall af íslenskum stofni (%) (ár) | Núverandi hlutfall af íslenskum stofni (ár) |
---|---|---|---|---|---|
Landselur (Phoca vitulina) | 104,0 (2003)
|
814,0 (1998)
|
26,5 (1998)
|
13,2 (1998)
|
2,6 (2018)
|
Útselur (Halichoerus grypus) | 30,0 (1985)
|
620,0 (1990)
|
100,0 (1989)
|
38,0 (2009)
|
7,9 (2017)
|
Ógnir
Þættir sem taldir eru geta haft áhrif á fækkun sela eru veiðar, beinar veiðar og hjáveiðar, og truflun.
Aðgerðir til verndar
Tryggja þarf selum vernd í látrum og nærliggjandi grunnsævi þar sem fæðuöflun fer fram.
Núverandi vernd
Núverandi verndarsvæði | Staða |
---|---|
Hornstrandir | Friðland |
Útgáfudagsetning
Gefið út: 2020-12-03