Vistgerðakort og mikilvæg fuglasvæði

Vistgerðir og mikilvæg fuglasvæði eru sameinuð í einni kortasjá og niðurhalsgögn þeirra eru aðgengileg í niðurhalsgátt Landmælinga Íslands ásamt öðrum gögnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Kortasjá

Leiðbeiningar um notkun kortasjár (pdf)

Niðurhal

Vistgerðakort

Náttúrufræðistofnun Íslands skilgreinir og flokkar íslenskar vistgerðir. Þær eru flokkaðar samkvæmt alþjóðlegum aðferðum og leggja grunn að skynsamlegri landnotkun, vernd náttúrunnar og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. 

Vistgerðakort sýnir útbreiðslu 105 vistgerða á landi, í ferskvatni og fjöru. Kortlagning vistgerða byggir að mestu leyti á fjarkönnun (fyrirvari) þar sem notaðar eru gervitunglamyndir frá RapidEye, SPOT og LANDSAT, ásamt loftmyndum. Vettvangsvinna var einnig yfirgripsmikill þáttur í kortlagningunni, skipulögð og unnin af starfsfólki Náttúrufræðistofnunar Íslands og samstarfsaðilum á árunum 1999–2016. Að auki voru notuð tiltæk landupplýsingagögn, svo sem gróðurkort, hæðarlíkön, vatnafar, úrkoma og útbreiðsla hrauna, skóga og ræktaðs lands. Nákvæmni kortsins miðast við mælikvarða 1:25.000.

Ítarleg umfjöllun um skilgreiningu og flokkun vistgerða er í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr. 54, Vistgerðir á Íslandi og á vistgerðasíðum á vefnum.

Lýsigögn um vistgerðir

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur gjarnan á móti athugasemdum við vistgerðakortin. Ábendingar má senda á tölvupóstfangið ni@ni.is.

Mikilvæg fuglasvæði

Skilgreind hafa verið svæði sem teljast alþjóðlega mikilvæg fyrir þá 81 tegund fugla sem eru varpfuglar eða reglulegir gestir hér á landi. Alls er 121 svæði á Íslandi sem telst alþjóðlega mikilvægt fyrir fugla og eru þau flokkuð í þrennt; sjófuglabyggðir, fjöru og grunnsævi og votlendi og önnur svæði.

Mörk margra svæða eru fremur lauslega dregin. Fyrir tegundir sem verpa mjög dreift, eins og mófugla og ránfugla, verða verndarsvæði óhjákvæmilega stór ef þau eiga að hýsa umtalsverðan hluta viðkomandi stofns. Aftur á móti er oftast auðvelt að afmarka sjófuglabyggðir.

Ítarleg umfjöllun um aðferðafræði og val á mikilvægum fuglasvæðum er í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr. 55, Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi og á staðreyndasíðum um mikilvæg fuglasvæði á vef stofnunarinnar.

Lýsigögn um mikilvæg fuglasvæði