Vistgerðakort – Fyrirvari

Náttúrufræðistofnun Íslands leggur með ritinu Vistgerðir á Íslandi fram tillögur að flokkun vistgerða sem á sér fyrirmynd í samræmdri og viðurkenndri flokkun vistgerða í Evrópu. Flokkunin byggir á rannsóknum víða um land með fyrirvara um að bæta mætti í þá þekkingu.

Við gerð vistgerðakorts voru landvistgerðir að mestu leyti aðgreindar með fjarkönnun sem reyndist erfitt. Má sem dæmi má nefna að ekki var unnt að greina á milli sumra vistgerða sem voru lítið grónar með neinni vissu. Að sama skapi reyndist erfitt að greina á milli vel gróinna vistgerða og átti þetta einkum við um vistgerðir innan sama vistlendis, svo sem graslendisvistgerðir og sumar votlendisvistgerðir. Einnig gat verið erfitt að greina á milli vistgerða í mismunandi vistlendum, til dæmis á milli sumra votlendisvistgerða og mólendisvistgerða þar sem gróska er lítil. Gróðurfarslegur skyldleiki getur haft áhrif á möguleika á greiningu. Þar má nefna skil á milli grasmóavistar og graslendisvistgerða eða mosamóavistar og moslendisvistgerða. Sömuleiðis geta ólíkar vistgerðir haft að geyma sömu algengu plöntutegundirnar sem gervitunglin nema vel. Dæmi um þetta eru runnamýravist, fjalldrapamóavist, grasengjavist, lyngmóavistir, víðimóavist og víðikjarrvist sem allar hafa víði eða fjalldrapa sem algengar tegundir. Því má í sumum tilvikum gera ráð fyrir að um verulegar skekkjur sé að ræða þótt þær séu mismiklar eftir vistgerðum. Hvað varðar kortlagningu á vistlendum sýnir kortið yfirleitt raunsanna mynd af stærð og útbreiðslu þeirra á landinu þótt ýmsar villur fyrirfinnist. Notendum kortsins er bent á ritið Vistgerðir á Íslandi fyrir nánari útlistun og mat á skekkjum sem finna má í aðferðalýsingu og á staðreyndasíðum vistgerða.

Náttúrufræðistofnun tekur við ábendingum um leiðréttingar á vistgerðakorti í gegnum netfangið ni@ni.is

Heimild:
Jón Gunnar Ottósson, Anna Sveinsdóttir og María Harðardóttir, ritstj. 2016. Vistgerðir á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 54. 299 s. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.